148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:22]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Nokkur málasvið í þessari fjármálaáætlun heyra undir ráðuneyti mitt, m.a. málasvið 27, örorka og málefni fatlaðs fólks, vinnumarkaður og atvinnuleysi, húsnæðisstuðningur, fjölskyldumál og málefni aldraðra. Á fimm mínútum er auðvitað ekki hægt að fara mjög ítarlega yfir öll þau málefnasvið, stefnur og strauma þar og áætlanir ríkisstjórnarinnar, þannig að ég ætla að taka fyrir nokkur atriði. Svo treysti ég því að einhver mál komi upp í andsvörum eða fyrirspurnum í framhaldinu.

Ég vil byrja á því að taka fyrir málefni örorkulífeyrisþega vegna þess að ég veit að þau hafa verið talsvert til umræðu í þeirri umræðu sem verið hefur í dag. Þar er alveg skýrt af hálfu þessarar ríkisstjórnar að ætlunin er að setja mikinn kraft í að koma í gegn kerfisbreytingu í þeim málaflokki sem snýr að örorkulífeyrisþegum og innleiða starfsgetumat. Gert ráð fyrir aukningu í fjárlögunum upp á 4 milljarða sem ætlunin er að komi til móts við ákveðna þætti þar. Það er algjörlega skýr áætlun ríkisstjórnarinnar að afnema krónu á móti krónu skerðingar, það mun gerast í þessari vinnu.

Það liggur líka ljóst fyrir að þessi vinna er bara að fara af stað þannig að það kann vel að vera að út úr henni komi þættir sem kalla muni á breytingar í framhaldinu. En fyrst verður að hefja vinnuna og er mjög mikilvægt að hún komist af stað hið fyrsta. Það hef ég sagt í þinginu og sagði það m.a. í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í þessari viku.

Síðan langar mig að koma aðeins inn á húsnæðismál. Gert er ráð fyrir því að aukning sé í stofnstyrkjum á næsta ári upp á 800 millj. kr. og í framhaldi af því sé gert ráð fyrir að árlega séu byggðar um 300 íbúðir.

Þarna er verið að ljúka við það samkomulag sem þegar hefur verið gert við aðila vinnumarkaðar varðandi uppbyggingu á íbúðum í almenna íbúðakerfinu sem er farin af stað og hefur gefið góða raun. Það liggur líka fyrir og hefur komið fram hjá mörgum aðilum vinnumarkaðarins að það er vilji til þess að auka þarna við. Ekki er ósennilegt að það komi upp í samtali milli aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda í framhaldinu, ekkert er hægt að segja um það á þessari stundu.

Hægt er að bæta við að gert er ráð fyrir því í fjármálaáætlun og stefnu ríkisstjórnarinnar að endurskoða vaxtabótakerfið og húsnæðisbótakerfið og lögð áhersla á það, það var gert við framlengingu kjarasamninga núna. Þar á fyrst og fremst að huga að því að þessar bætur nýtist ungu fólki og tekjulágu fólki í auknum mæli.

Mig langar að koma inn á tvö mál í viðbót vegna þess að nú er tími minn að klárast, þetta er ekki mjög langur tími. Annars vegar er það fæðingarorlof þar sem gert er ráð fyrir að þær greiðslur verði hækkaðar á tímabilinu og að áfram verði unnið að lengingu fæðingarorlofs og útfærslu á því í samráði við aðila vinnumarkaðar líkt og ríkisstjórnin hefur boðað. Hún hefur átt í viðræðum við aðila vinnumarkaðar um útfærslur á því hvernig það verði gert, enda er það ætlun ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili að þá sjái til lands varðandi það að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði.

Að lokum langar mig að koma inn á málaflokk sem skiptir miklu máli og gert er ráð fyrir ákveðinni stefnubreytingu á, bæði varðandi ákveðnar fjárveitingar í fjárlögunum og eins varðandi stefnuvinnu sem er að fara í gang og snýr að málefnum barna. Þar er gert ráð fyrir auknum fjármunum á þessu tímabili sem eiga að nýtast í að vinna meira að snemmtækri íhlutun í málefnum barna, bæði varðandi útfærslu nýrra úrræða og eins varðandi mögulegar kerfisbreytingar. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við leggjum aukna áherslu á þennan málaflokk, vegna þess að við sjáum að ungt fólk er í auknum mæli með kvíða og með andleg veikindi sem ég held að megi rekja til þess að velferðarkerfið okkar verður að taka betur utan um börnin á fyrri stigum. Ég gæti auðvitað haft langt mál um það, en nú eru því miður bara tvær sekúndur eftir af tíma mínum, þannig að ég vonast til þess að einhver spyrji mig að þessu hér á eftir. Ég hlakka til þess að taka þátt í umræðum að þessari ræðu lokinni.