148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:28]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórn sem kennir sig við umbætur og segist vera í forsvari fyrir almenning í landinu situr við völd og kynnir okkur nú áherslur sínar til næstu ára, á tímum þegar einstakt góðæri ríkir, þegar tækifæri er til að bæta fyrir þær sáru og erfiðu fórnir sem færa þurfti eftir efnahagslega svallveislu á fyrsta áratug aldarinnar. Við vitum hverjir voru þar á ferðinni.

Á þessu stigi umræðunnar koma málefni lífeyrisþega fyrst upp í hugann. Aldraðir búa við hneykslanleg kjör og greinilegt er að fjármálaráðherra virðist eiga erfitt með að horfast í augu við þann veruleika sem þeir búa við, þá mánaðarlegu upphæð t.d. sem þeir hafa til framfærslu. Það er jafnvel innan við 250 þús. kr. Þessu þarf að linna og stjórnvöld verða að taka í eigið hnakkadramb og lagfæra þetta. Ef ekki núna þá hvenær í ósköpunum? Þetta virðist ekkert áhersluatriði í fjármálaáætlun. Í öllum bænum, hæstv. ráðherra, segðu að ég hafi rangt fyrir mér.

Hvernig geta þeir sem nú ráða ríkjum réttlætt fyrir sér þennan ómöguleika sem lífeyrisþegum er búinn, ómöguleika sem beinlínis stuðlar að vanlíðan og tómarúmi í lífinu? Allir hvatar til tekjuöflunar eru frá þeim teknir, þeim sem hafa til þess svo sem einhverja möguleika.

Það nákvæmlega sama á við um öryrkja. Uppi voru skýr og hástemmd loforð stjórnarflokkanna fyrir og raunar eftir kosningar líka um að lagfæra kjör öryrkja og draga úr krónu á móti krónu skerðingum og bæta í grunngreiðslur. Stjórnarliðar hafa til og með annað slagið haft orð á þessu sjálfir nýlega, allt sé verið að undirbúa, endurskoðun sé á döfinni, eins og kom fram raunar hjá ráðherra rétt í þessum töluðum orðum.

Þessi málefni eiga að vera forgangsverkefni. Þetta átti að vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar. Spurt er: Hvað dvelur orminn langa? Hvenær ætlar stjórnin að taka við sér? Þessir góðu þegnar okkar bíða svara og við skuldum þeim úrlausn strax. Hvenær kemur hún, hæstv. ráðherra? Hvernig verður hún? Stutt svar óskast.