148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:30]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni varðandi örorkulífeyrisþega þá er verið að setja í gang vinnu er lýtur að þeim þætti. Vonandi getur sú vinna hafist sem fyrst. Það liggur fyrir hvernig uppbyggingin á flæðiritinu á að vera varðandi starfsgetumatið en það eru mjög margir lausir endar í tengslum við það sem þarf að ræða bæði varðandi starfsgetumatið og síðan kjaramál þess hóps almennt sem ætlunin er að taka þarna samhliða. Þetta nýja mat mun leggja af krónu á móti krónu kerfið, það er ætlunin að gera það.

Það var niðurstaða mín þegar fagvinnu var lokið hvað þetta snerti að það væri mikilvægt að fá pólitíkina að þessu, bæði þá sem snúa að vinnumarkaðnum, gagnvart starfsgetumatinu, og svo fá pólitíkina að því að ræða það hvernig við ætlum að byggja upp kjör þessara hópa.

Í því ljósi var óskað sérstaklega eftir fulltrúum í starfshópinn. Það mætti ekki vera allt of stór starfshópur sem ynni að þessu. Í því ljósi var óskað eftir fulltrúum frá bæði stjórn og stjórnarandstöðu. Það er í rauninni búið að manna þetta allt, það eru komnar tilnefningar frá öllum aðilum vinnumarkaðarins, frá ÖBÍ, frá Þroskahjálp og öðrum, en það skortir enn þá nokkrar tilnefningar upp á eða reyndar bara eina tilnefningu, það er fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem ætlunin er að skipa í þennan starfshóp. Ég vonast til þess að það geti komið sem fyrst þannig að við getum farið að hefja þessa vinnu vegna þess að það er gríðarlega brýnt.

Ég hef sagt það frá fyrsta degi þegar ég tók við embætti að það væri algjört forgangsmál að vinna að málum sem snúa að starfsgetumatinu. Það er mjög brýnt að sú vinna geti hafist sem fyrst vegna þess, alveg eins og hv. þingmaður kom inn á, að það þolir ekki bið. En við ætlum í þessa kerfisbreytingu og að bæta kjörin samhliða því.