148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir einlæg og góð svör. Í burðarliðnum eru ný löggjöf sem réttir hlut fatlaðra, svokölluð NPA löggjöf. Við vonumst til þess að hún komi til framkvæmda í vor. Ráðherra hefur fylgt því máli mjög fast eftir af áhuga og skörungsskap. Bestu þakkir fyrir það.

Að öðru leyti finnst mér þessi fjármálaáætlun eins og ég hef rýnt í hana vera að miklu leyti eins og þúsund frjálsir fuglar í skógi. Það er lítið sem hönd á festir en mikið um háleit markmið. Það eru mörg velferðarmálin sem þessi ríkisstjórn ætti að hafa í öndvegi en eru algjörlega hornreka. Verkin og efndirnar segja meira en þúsund orð.

Barnaverndarmál eru í brennidepli um þessar mundir og það ríkir bráðavandi. Það er fjöldi barna á refilstigum og við þurfum úrlausnir strax. Það verður fróðlegt að vita hvað er á döfinni í þeim efnum. Það á að byggja nýtt meðferðarheimili á suðvesturhorninu. Það vantar enn þá lóðina. Menn vita ekki hvar húsið á að vera og það líða örugglega þrjú ár þangað til húsið kemur og ljóst að það þarf úrlausnir á meðan.

Virðulegur forseti. Nei, þessi þjóð þótt hún sé baldin þá á hún ekki þetta skilið.

Hæstv. ráðherra. Það sem hægt er að lesa í þessa áætlun veldur vonbrigðum.