148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er einmitt vegna reynslu þess sem hér stendur, að stýra nefnd í líklega um tvö ár og hafa setið í henni eitt annað ár á undan, sem hann gerir sér grein fyrir að þessi kerfisbreyting sem ráðherra boðar verður ekki til á einum degi, hún verður ekki til fyrr en hugsanlega í lok þessa kjörtímabils. Það á við ef ríkisstjórnin nýtur trausts samningsaðilans, sem hún gerir ekki samkvæmt þessu sem hér segir.

Því spyr ég: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera núna? Fólkið sem hér um ræðir þolir ekki að bíða. Það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér fyrir rétt rúmu ári, sitjandi á öðrum bekk, að það fólk geti ekki beðið eftir réttlæti, það hafi ekki tíma til þess. Ég virði það við hæstv. ráðherra að ætla að setja þessa vinnu í gang, en hvað á að gera þar til það gerist? Þetta raungerist ekki fyrr en að einhverjum árum liðnum.

Síðan langar mig að vekja athygli á öðru; það eru ungir öryrkjar. Það segir, með leyfi forseta, á bls. 341 í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, og ég lýsi eftir höfundi þessarar snilldar:

„Einn helsti áhættuþáttur málaflokkanna er hversu margir einstaklingar hafa verið metnir til örorku hjá almannatryggingum og fá greiddan örorkulífeyri ár hvert.“

Ja, hérna. Ég á bara ekki orð yfir þessa snilld. Hvað ætla menn að gera til að, eins og kemur fram í þessari áætlun, að fækka öryrkjum eða nýgengi örorku niður í 1.200 manns árið 2023? Hvernig ætla menn að fara að því? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til þess? Hvað ætlar hann að gera til að koma í veg fyrir að ungt fólk, sérstaklega ungir karlmenn 18 til 24 ára haugist inn á (Forseti hringir.) örorkumat, því miður? Hvað ætlar þessi ágæti hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að gera til að leiðrétta og laga þessi mál annað en að gera kerfisbreytingu eftir nokkur ár?