148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:48]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og vil segja að ég deili þeirri sýn með hv. þingmanni að það er mikilvægt að grípa inn í þegar kemur að snemmtækri íhlutun í málefnum barna. Ég held að þar sé ekki einungis við fátækt að glíma, það eru fleiri atriði sem taka þarf inn sem skipta gríðarlega miklu máli.

Það liggur alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin ætlar sér að ráðast í markvissar aðgerðir sem miða að þessu. Sú vinna er komin af stað, eins og ég kom inn á áðan. En þegar kemur að börnum sem búa við fátækt er líka ætlunin að endurskoða þau bótakerfi sem við erum með, vaxtabótakerfi, barnabótakerfi, húsnæðisbótakerfi, þannig að það nýtist betur þeim fjölskyldum sem lægstar hafa tekjurnar. Endurskoðun á barnabótakerfinu heyrir reyndar undir fjármálaráðherra en ekki félags- og jafnréttismálaráðherra þannig að einstaka breytingar á því eru ekki á færi þess sem hér stendur. En auðvitað er hægt að hafa áhrif á það, það er alveg hárrétt.

Samt sem áður er gríðarlega mikilvægt í málefnum barna og snemmtækri íhlutun að byggja … Ég held að það sé ekki nóg, við erum ekki eingöngu að tala um aukningu á fjármunum inn í einstaka bótaliði. Við þurfum að ráðast í kerfisbreytingu, skoða hvernig velferðarkerfið er uppbyggt gagnvart þessum börnum þannig að kerfið grípi þau fyrr. Þeirri hugsun þarf síðan að fylgja fjármagn í framhaldinu. Í mínu ráðuneyti er hafin vinna sem snýr að þessari snemmtæku íhlutun og er það sem vitnað er til í þeim kafla sem þarna er. Ætlunin er að ráðast í kerfisbreytingar hvað það snertir til þess að samfélagið grípi börnin fyrr þegar þau lenda í vanda og að hin ólíku kerfi, menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, sveitarfélögin og grunnskólarnir þar undir, vinni meira saman og við brjótum niður múrana sem þar eru.