148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:52]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi á aukningu á örorkunni myndi ég segja að það undirstrikar annars vegar að það þarf í fyrsta lagi að innleiða starfsgetumatið til þess að glíma við þann vanda sem þegar er til staðar og verður líklega í pípunum næstu árin, vegna þess að ég tel að það séu talsvert margir einstaklingar sem ekki hafa fengið úrlausn sinna mála meðan þeir voru börn.

Í öðru lagi, til þess að við getum farið að vinna okkur út úr þeim vanda sem við erum í gagnvart þessum málaflokki þurfum við að fara að huga miklu fyrr að börnunum okkar, hvernig við grípum inn í á fyrri stigum, vegna þess að ég hef áhyggjur af því að sá vandi sem við erum að glíma við núna, sem varðar fólk á aldursbilinu 20–30 ára eða 20–35 ára, að annað eins er í pípunum nema við gerum kerfisbreytingar á velferðarkerfinu þannig að starfsgetumatið geti tekið á þessum vanda. Síðan verðum við að setja hina vinnuna í gang sem snýr að börnunum og þar vil ég fá hvern einasta flokk hér á þingi með í lið, vegna þess að þetta er ekki mál einhvers eins flokks, þetta er mál allra flokkanna hérna á þinginu. Það á ekki að vera pólitískt deiluefni að við breytum velferðarkerfi okkar til þess að grípa fyrr inn í.

Síðan langar mig að koma inn á styttingu vinnuvikunnar. Í gangi hefur verið tilraunaverkefni hjá hinu opinbera og í samstarfi við BSRB sem snýr að styttingu vinnuvikunnar. Ætlunin er að framlengja það verkefni. Unnið er að undirbúningi á því í samstarfi við BSRB. Nokkrir vinnustaðir hafa verið að prófa að stytta vinnuvikuna og vinna samhliða úr upplýsingum sem berast þar inn. Verið er að vinna að því að framlengja það og fjölga vinnustöðum þar inni. Það þarf að fá einn vaktavinnustað enn þar inn og er það gert í góðu samráði við BSRB. Þetta lýtur að ríkisvaldinu. Hitt er auðvitað að hluta til kjarasamningsatriði á milli aðila og legg ég áherslu á að þetta verkefni geti haldið áfram. Ég er sammála hv. þingmanni um það að þetta getur haft mikil áhrif á stöðu fjölskyldna og fjölskyldufólks.