148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:57]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa prýðisgóðu ræðu. Þegar kemur að kjörum öryrkja og þeim skerðingum sem þar eru, þá hef ég ítrekað sagt að ætlunin er að taka á því við innleiðingu á þessu nýja kerfi. Við erum komin talsvert langt í þeirri vinnu. Það er búið að móta uppbygginguna á starfsgetumatinu og hún liggur fyrir og búið að tala við fjölmarga aðila í tengslum við það en mörg atriði í tengslum við það þarf að skera úr um og þau snúa m.a. að kjörunum, hækkununum, hversu miklar, með hvaða hætti, og skerðingunum, króna á móti krónu. Ætlunin er að það fari fram samhliða þessari vinnu. Þess vegna er svo mikilvægt að hún komist af stað hið fyrsta. Hún á ekki að þurfa taka mörg ár eins og margir láta í veðri vaka hér. Þetta á að geta gengið hratt fyrir sig. Það er auðvitað talsvert mikil vinna og grunnundirbúningur sem liggur fyrir frá því að nefnd hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar vann að þessu og margt sem hægt er að nýta þaðan.

Það liggur alveg ljóst fyrir að það er ætlun mín og ætlun ríkisstjórnarinnar að gera þetta af krafti. Þetta er eitt tveggja aðaláherslumála míns ráðuneytis á þessu ári, annars vegar starfsgetumatið og hins vegar málefni barna. Þetta er því algjört áherslumál og það er mjög mikilvægt að fá stjórnmálin að þessu og það var m.a. Öryrkjabandalagið sem óskaði eftir því að fulltrúar stjórnmálaflokka kæmu þarna inn. En það var líka óskað eftir því að þessi starfshópur yrði ekki allt, allt of stór. Sem betur fer og því miður þá eru mjög margir flokkar á Alþingi, sem betur fer vegna lýðræðisins en því miður þegar kemur að skipun í svona hópa. Ég hef ekki fengið beiðni um það frá þinginu eða frá þingflokkum um að fjölga í þessum hópi. Ég er ítrekað búinn að óska eftir tilnefningum í hópinn en þær hafa ekki borist. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri óskað eftir því að þeim verði fjölgað og það er sjálfsagt að ræða það og ég er auðvitað opinn fyrir því en þetta má samt ekki verða of stór hópur því að þá verður þetta orðið heilt löggjafarþing.