148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Ég ætla að segja við ráðherra: Tíminn til aðgerða er núna. Það þýðir ekkert að koma hér og tala um einhver ár. Það er ekki hægt. Það er enginn vilji til þess að bíða. Það þýðir ekkert að vera með einhverjar málalengingar. Ég ætla ekki að saka hæstv. ráðherra um það, ég veit að hann ber góðan hug, en ég ætlast til þess að ráðherra sýni það og að hann skilji það að verk og orð verða að fara saman. Það þýðir ekkert að koma hér og hafa uppi góð orð, hann verður, frú forseti, metinn af verkum sínum. Og hann verður inntur eftir þessu aftur og aftur og aftur þangað til hann er búinn að skila fullnægjandi verki.

Ég ætla að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra sömuleiðis hvort hann ætli raunverulega að láta það gerast á sinni vakt sem félagsmálaráðherra að Hugarafl og geðheilsuteymið líði undir lok í einhverju stofnanafargi. Það er ekki í boði, hæstv. ráðherra og frú forseti, að ráðherra komi hér og hæstv. heilbrigðisráðherra og þau vísi hvort á annað í þessu máli. Það er eftir því tekið hvernig þau halda á þessu máli. Hér eru gífurlega miklir hagsmunir undir fyrir skjólstæðinga Hugarafls og geðheilsuteymisins, aðstandenda þeirra og þeirra sem hafa staðið fyrir þessari starfsemi með glæsibrag og miklum árangri, sem seint verður full þakkað.

Frú forseti. Það er ætlast til skýrra svara. Það eru ekki í boði neinar málalengingar. Er ráðherra tilbúinn til að koma hér og segja það við þing og við þjóð að Hugarafli og geðheilsuteyminu verði bjargað, skýrt og skilmerkilega og möglunarlaust?