148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Það er stuttur tími til þess að ræða hér gríðarlega mikilvægan málaflokk og víðfeðman. Það sem veldur mér kannski mestum vonbrigðum þegar ég horfi á markmiðasetningu hæstv. félagsmálaráðherra í þessum mikilvægu málum er að stórum hluta af pólitískri stefnumótun í málaflokknum virðist hafa verið úthýst til aðila vinnumarkaðarins. Það á raunar við fleira í stefnu ríkisstjórnarinnar. Þannig virðist hún ekki hafa sjálfstæða stefnu í skattamálum heldur ætlar aðilum vinnumarkaðarins að móta framtíðarskattkerfið, sniðgengur þannig þingið algerlega má segja í þeirri umræðu.

Það sama á við þegar kemur að áherslum í fjölskyldumálum, í bótakerfum, í húsnæðismálum og fleiri málum. Þar virðist engin stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar vera á ferðinni heldur er einfaldlega beðið krafna eða beiðna aðila vinnumarkaðarins í þeim efnum. Það veldur auðvitað miklum vonbrigðum. Það veldur líka vonbrigðum þegar maður horfir á stefnumörkunina að helstu markmið virðast heldur fátæklegri en þau voru fyrir ári síðan, óljósari að mörgu leyti.

Ég myndi vilja byrja á að spyrja hæstv. ráðherra út í markmiðin sem snúa að örorkunni í ljósi þess að nú er að hefjast að nýju einhvers konar nefndarvinna um endurskoðun á örorku- og lífeyriskerfinu. Engu að síður er gert ráð fyrir að öryrkjum muni í raun og veru fækka verulega í hlutfalli af starfandi fólki á gildistíma þessarar fjármálaáætlunar. Ég velti fyrir upp þeirri spurningu: Hvaða tromp hefur hæstv. ráðherra í erminni til þess að tryggja að svo verði þegar ljóst er að meginmarkmið endurskoðunar á örorkulífeyriskerfinu sjálfu liggja ekki fyrir?

Þá eru líka vonbrigði að sjá að markmiðum í málefnum fatlaðs fólks fækkar verulega. Þar er fyrst og fremst að finna áherslur á (Forseti hringir.) greiningu barna, sem er vissulega mikilvægt, en ég sakna þeirra markmiða sem voru í fyrri fjármálaáætlun sem snúa að áherslunni á (Forseti hringir.) réttindum fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs. Ég sé afskaplega lítið um það í nýrri fjármálaáætlun.