148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:17]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi bótakerfin, barnabætur, vaxtabætur og reyndar húsnæðisbætur líka, þá hefur ríkisstjórnin hefur boðað, og ég sagði það í framsöguræðu minni, að hún ætli að endurskoða þessi bótakerfi með það að markmiði að þau nýtist betur þeim hópum sem lægstar hafa tekjurnar og þá að hluta til líka ungu fólki, sérstaklega húsnæðis- og vaxtabæturnar.

Því er ég sammála. Það er m.a. það sem lagt var upp með þegar kjarasamningar voru framlengdir, þ.e. ekki sagt upp, að sú vinna færi af stað með það að markmiði að þessir bótaflokkar nýttust betur þeim sem lægri hafa tekjurnar. Hægt er að ná betri árangri hvað það snertir. Ég er þeirrar skoðunar að fjármagninu til þeirra sem hærri hafa tekjurnar, t.d. í vaxtabótunum, sé betur varið með því að færa það innan þessa málaflokks til þeirra sem lægri hafa tekjurnar en að það nýtist áfram með þeim hætti að þeir sem hafa mjög háar tekjur fái háar greiðslur þarna úr.

Það er algerlega skýrt. Ég er sammála þeirri nálgun.

Varðandi húsnæðisstuðninginn. Gert er ráð fyrir 800 milljón kr. aukningu á næsta ári. Þetta er hluti af samningi sem gerður var við aðila vinnumarkaðar á sínum tíma um uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir að byggðar verði um 300 íbúðir á ári þegar því tímabili lýkur sem samið var um við aðila vinnumarkaðarins. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni er þetta eitt af þeim málum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa með óformlegum hætti lagt áherslu á að eigi að halda áfram. Einn stærsti aðilinn þar inni er byggingarfélag sem er einmitt í eigu aðila vinnumarkaðarins, Bjarg byggingarfélag. Það liggur ljóst fyrir að (Forseti hringir.) aukningin sem fer til baka snýst m.a. um samninga sem gerðir voru við þessa aðila. Það liggur fyrir að nýir samningar verða gerðir, en ekki er nákvæmlega vitað hverjar áherslur þeirra aðila verða þar.

Þetta er svarið við því. Ég styð þessa fjármálaáætlun, annars væri hún væntanlega ekki kominn inn í þingið. Ég styð hana, gerði það í ríkisstjórn og þingflokki og mun gera það líka í þingsal.