148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:21]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Það væri jákvætt ef við gætum fært hlutina til þannig að þessi bótakerfi okkar nýttust betur þeim sem lægri hafa tekjurnar. Fleiri málaflokkar heyra undir mitt svið og snúa að fjölskyldumálum, sem hv. þingmaður nefndi einhverra hluta vegna ekki. Í gildandi fjármálaáætlun hefur verið boðuð hækkun greiðslna í fæðingarorlofi og er það líka í umræðu og vinnslu hvernig við ætlum að lengja það í tólf mánuði. Það skiptir ekki síður máli fyrir barnafjölskyldur og fjölskyldur þessa lands að þau áform nái fram að ganga. Það legg ég mikla áherslu á.

Síðan varðandi bætt kjör kvennastétta, sem er áskorun sem við sem þing og ríkisstjórn eigum að takast á við, með hvaða hætti við getum ráðist í almennar aðgerðir til þess að ná því fram, get ég upplýst hv. þingmann um að ég var á fundi á Akureyri í gær í Jafnréttisstofu (Forseti hringir.) þar sem við ræddum m.a. til hvaða aðgerða ríkisvaldið gæti gripið til þess bæta kjör kvennastétta á Íslandi til muna. Ég hef mikinn metnað fyrir því og vonast til að geta átt samstarf við hv. þingmann og aðra við þá vinnu.