148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:25]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ja, það er jákvætt að hv. þingmaður er ekki félags- og jafnréttismálaráðherra, hann segir að verkefnið sé ómögulegt, að innleiða starfsgetumat og að aðstoða fólk við að ráðast í endurhæfingu til að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Það er algerlega ómögulegt að kerfið sé þannig hjá okkur að endurhæfingarkerfið og það sem við höfum byggt upp geri að verkum að örorkulífeyrisþegum fjölgi meira en fæðingum í landinu. Það er ómögulegt að okkur sem samfélagi mistakist að halda fólki á vinnumarkaði sem sannarlega á að geta verið þar og tekið virkan þátt í atvinnulífinu og samfélaginu. Þess vegna er mikilvægt að flýta þessari vinnu.

Mig langar að lesa upp setningu úr fréttatilkynningu sem kom í tengslum við fjármálaáætlun, með leyfi virðulegs forseta, bara gríp hér inn í miðjan texta:

„Þá er vinna hafin að undirbúningi starfsgetumats sem komi í stað læknisfræðilegs örorkumats og að samhliða því verði gerðar breytingar á lífeyriskerfi almannatrygginga sem feli í sér einfaldara, sveigjanlegra og gagnsærra örorkulífeyriskerfi.“

Þessi vinna er hafin nú þegar í ráðuneytinu. Það er mikilvægt í tengslum við hana að geta átt samtal og samstarf við alla helstu aðila sem að þessu koma. Þessi vinna er ekki að byrja núna, hún er þegar hafin. Það er hluti af henni að fá samtal og samstarf við fulltrúa þingsins, fulltrúa hagsmunaaðila, fulltrúa þeirra sem þurfa að skapa hlutastörf og fleira. Það tekur við innleiðingarferli í framhaldinu sem gerist ekki allt á einni nóttu. Þetta veit hv. þingmaður. Hann fór fyrir sambærilegri vinnu þegar kom að málefnum aldraðra. Það er í þessum viðræðum sem fram fara sem við getum stillt það af og ákveðið með hvaða hætti aukningin verður, með hvaða hætti við bætum kjör þessara hópa.

Ég vil hvetja hv. þingmann til að hvetja sína félaga til þess að skipa fulltrúa (Forseti hringir.) í þennan starfshóp þannig að við getum farið að hefjast handa við þessa vinnu. Málefnið er gríðarlega brýnt.