148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:28]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sannfærður um að það er hægt að ljúka vinnu við það og ná saman um það hvernig starfsgetumatið verður innleitt. Í framhaldinu mun hefjast innleiðingarferli sem getur auðvitað verið tekið í einhverjum skrefum, það verður niðurstaðan úr þessu sem kemur í ljós og aukning kjaranna líka. En það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að starfsgetumatið verður ekki innleitt ef ekki tekst að skipa í þennan ágæta starfshóp vegna þess að fulltrúar neita að skipa í hann eða hafa ekki þegar skipað í hann. Það er auðvitað grábölvað, svo maður noti bara það orð, að ekki hafi tekist að skipa í hann enn þá.

Ég vil enn og aftur hvetja hv. þingmenn til þess að aðstoða mig í því að fá fram skipun í þennan hóp. Ef menn vilja fjölga fulltrúum í honum þá er það allt í lagi, en ég hef ekki heyrt hv. þingmann óska eftir því, það er einungis hv. þm. Ólafur Ísleifsson sem góðfúslega benti á það hér. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi vinna hefjist, ég ítreka það. Þetta er annað af tveimur áhersluverkefnum ráðuneytisins á þessu ári. Ég er sannfærður um að þetta tekst. Ég sé ekki hlutina svona svarta eins og hv. þingmaður gerir, ég bara geri það ekki, vegna þess að ég hef trú á því (Forseti hringir.) að þetta sé mögulegt á þessum tíma og ég vona að hv. þingmaður sjái það (Forseti hringir.) þegar fer að líða á þetta ár.