148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:30]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hér áðan gerði ég að umtalsefni vinnumarkaðinn og streitu og benti á að í fjármálaáætlun væri ýjað að því að samspil álags á vinnumarkaði og árekstra þess við einkalífið stuðlaði að fleiri tilfellum örorku á Íslandi. Það er í kaflanum um vinnumarkað. Í kafla fjármálaáætlunar sem fjallar um örorku kemur hins vegar fram stefna ríkisstjórnarinnar um að taka upp starfsgetumat, sem búið er að ræða dálítið mikið hér í kvöld. Ég spyr: Ætlum við virkilega að fara að taka upp mat á örorku sem hefur það sem meginmarkmið að koma öryrkjum aftur út á vinnumarkaðinn í sömu aðstæður og stuðluðu að örorku til að byrja með? Þurfum við ekki að byrja á því að taka vinnumarkaðinn í gegn og laga aðstæður þar?

Til að uppfylla markmið um fækkun þeirra sem fá sitt fyrsta örorkumat þurfum við að stíga afskaplega varlega til jarðar svo ekki sé troðið á sjálfsögðum réttindum þeirra sem þurfa virkilega á slíku mati að halda. Samkvæmt markmiðasetningu eins og hún kemur fram í fjármálaáætlun á að innleiða nýtt matskerfi örorku sem er mun flóknara en það sem nú er til staðar á þessu ári og því næsta. Ég vildi að ég gæti treyst því að innleiðing þess myndi ganga hnökralítið fyrir sig, en miðað við hversu illa gekk hjá ríkisstjórninni að koma þessari fjármálaáætlun saman finnst mér hæpið að svo viðamikil stefnubreyting gangi vel fyrir sig, sérstaklega í ljósi þess að hvert einasta mat á örorku er persónubundið og sérstakt tilfelli.

Það er líka stórmerkilegt að samhliða þeirri grundvallarbreytingu á málaflokknum sem starfsgetumatið er, á að fara í að greina ástæður þess að öryrkjum fjölgar og finna leiðir til að bregðast við því. Þessi sömu ár, 2018 og 2019, eiga að fara í að komast að því hver staðan er. Væri kannski ekki nær, hæstv. ráðherra, að byrja á því að komast að því af hverju öryrkjum fjölgar og fara svo í þá vinnu að gjörbylta matskerfinu? Hvað með að nýta þá þekkingu sem við höfum nú þegar og fara strax í aðgerðir til að minnka streitu fólks með því að afnema krónu á móti krónu skerðingar, stytta vinnutíma og auka lífsgæði? Væri það ekki sparnaður til langs tíma og ágætisbyrjun?