148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:32]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil bara segja það sem ég hef sagt áður í kvöld; ekki er einungis verið að meta starfsgetu hvers og eins, það er líka verið að skoða endurhæfingarkerfið, hvernig við aðstoðum einstaklingana með fjölþættum hætti til þess að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Það er grundvallarhugsunin. Það er ekki endilega rétt að kalla þetta starfsgetumat, vegna þess að þetta er starfsgetumat og endurhæfingarkerfi. Það er gríðarlega mikilvægt að við setjum allan þann kraft sem við eigum til þess að koma því á til þess að fleiri aðilar komi að því. Mynduð yrðu ákveðin teymi til þess að stýra endurhæfingu einstaklinganna þegar þeir detta út af vinnumarkaði ýmist af líkamlegum ástæðum eða andlegum.

Sú vinna er komin talsvert langt. Það er búið að aðlaga það. Búið er að gera talsvert miklar breytingar á uppbyggingu á þessu starfsgetumati og endurhæfingarkerfi frá því sem var bara í fyrra og búið að aðlaga talsvert mikið af þeim hugmyndum sem Öryrkjabandalagið sjálft hefur haft og kynnt í opnum skýrslum varðandi þessi mál.

Síðan vil ég segja að það er líka mikilvægt, af því að hv. þingmaður kom inn á það, að þessi vinna fari af stað. Það er líka mikilvægt samhliða því að við reynum að greina ástæður þess að örorkuþegum fjölgar svona mikið. Þá er ég kominn að hinum þættinum, sem er grunnáherslumál mitt, þ.e. málefnum barna. Börn eru börn þar til þau eru orðin 18 ára gömul. Okkur hefur með einhverjum hætti mistekist sem samfélagi að halda utan um þessi börn. Ég held að þau fari í of miklum mæli á örorku síðar. Þegar verið er að tala um að greina ástæður fjölgunar í örorku þá kemur það inn á þá vinnu sem nú er í gangi (Forseti hringir.) varðandi endurskoðun á allri lagaumgjörð barna. Sú greiningarvinna er þegar hafin af hálfu óháðs fyrirtækis (Forseti hringir.) sem vinnur í samstarfi við (Forseti hringir.) ráðuneytið.