148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:34]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka ráðherra svörin og vildi að ég gæti farið í ítarlegri samræður um þessi mál, en við höfum svo stuttan tíma og það er svo margt sem þarf að fara yfir. Mig langar til að gera að umtalsefni stefnumótun ríkisstjórnarinnar varðandi húsnæðisstuðning eins og hann birtist í fjármálaáætluninni.

Það er ferlega erfitt þegar kaflinn um markmið og aðgerðir hefst á orðunum, með leyfi forseta:

„Heildarstefna um húsnæðisstuðning til framtíðar liggur enn ekki fyrir.“

Maður spyr sig þá: Um hvað á þessi tæplega tvö þúsund orða kafli að fjalla? Nú er öllum landsmönnum ljóst að skortur á stefnu í húsnæðismálum er eitt helsta áhyggjuefni þjóðarinnar, ef heilbrigðismálin eru undanskilin. Samt hefur ríkisstjórnin á sínum 132 dögum ekki komið með snefil af haldbærum lausnum fyrir þá sem eru á hrakhólum á húsnæðismarkaði, bara loforð um að skoða málin seinna. Sérstaklega eru leigjendur þessa lands í viðkvæmri stöðu sem eru í ofanálag oftast þeir sem verst eru staddir fjárhagslega til að byrja með. Það væri því áhugavert að heyra frá ráðherra um hvað þessi kafli snýst. Eru engar aðgerðir aðrar fyrirhugaðar en að skoða málin næstu fimm árin í einu af brýnustu (Forseti hringir.) málefnum líðandi stundar?