148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:36]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um að húsnæðisstuðningur er gríðarlega mikilvægt atriði, sérstaklega hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar vegna þess að hlutfallið af tekjum þeirra sem fer í húsnæðiskostnað er allt of hátt. Þegar tekin er ein setning út úr húsnæðisstuðningskafla sem er upp á nokkrar blaðsíður og hún lesin upp í ræðustól án þess að komið sé inn á fleiri þætti sem þar eru kann það auðvitað að hljóma ankannalega. Í gangi eru ýmsar aðgerðir þegar kemur að húsnæðismálum.

Hvað það snertir má nefna sem dæmi að ég á von á því að á næstu vikum, eftir samstarf ráðuneytis við Íbúðalánasjóð, munum við boða aðgerðir, í það minnsta tvo pakka sem verið hafa í vinnslu, annars vegar varðandi nýbyggingar á landsbyggðinni, sem ég boðaði strax þegar ég tók við embætti að þyrfti að fara af stað með, og hins vegar varðandi fyrstu kaup ungs fólks og tekjulágra. (Forseti hringir.) Sá hluti er í vinnslu þessi og er væntanlegur vonandi á næstu vikum, þannig að ráðuneyti mitt hefur ekki setið aðgerðalaust í þessum málum þá heilu fjóra mánuði sem ég hef setið í embætti.