148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra kom hér áðan upp og svaraði fyrirspurn um Hugarafl sem mér er virkilega hjartfólgið og ég ætla að krefja hann um frekari svör við því. Mér fannst svör hans áðan ekki vera nokkur svör. Hann sagðist vera að skoða þessi mál, þetta heyrði undir hann, en gaf engin svör. Það komu engin svör. Ég segi við hæstv. félagsmálaráðherra: Bjargaðu þessu úrræði. Þarna eru frjáls félagasamtök. Þarna er frjálst úrræði, ókerfislægt úrræði þar sem notendur geta komið inn algjörlega frjálst utan af götunni, algjörlega óbundnir, og leitað sér hjálpar, eru teknir þar inn á faglegum forsendum. Þetta er oft eina úrræði mjög margra viðskiptavina á þessum stað.

Nú á að hreinsa þetta út úr kerfinu og búa til kerfislægt úrræði utan um geðsjúklinga þar sem mjög margir verða út undan, nota ekki þjónustuna, láta ekki sjá sig. Og við erum á sama tíma að tala um fjölgun öryrkja, þunglyndi, kvíða, depurð, hættu á sjálfsvígum o.s.frv. Við erum að tala einmitt um það fólk sem virkilega þarf á því að halda að geta komið á eigin forsendum og leitað sér hjálpar, hæstv. félagsmálaráðherra. Skjólstæðingar Hugarafls hafa verið mörg hundruð árlega undanfarið sem hafa fengið þar aðstoð. Hæstv. félagsmálaráðherra var einmitt að tala um það að halda fólki úti á vinnumarkaði. Er þetta ekki einmitt úrræði til að aðstoða fólk til sjálfsbjargar og að komast út á vinnumarkað? (Forseti hringir.) Ég vil fá frekari svör, hæstv. ráðherra.