148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:42]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu svari hæstv. félagsmálaráðherra. Hann hefur hug á því að styðja áfram við Hugarafl og þeirra úrræði, en það þarf meira til. Hæstv. félagsmálaráðherra þarf greinilega að vinna með hæstv. heilbrigðisráðherra til að halda utan um þetta úrræði og sjá til þess að það verði áfram við lýði og samtökin geti áfram unnið sitt góða starf sem við hæstv. félagsmálaráðherra erum sammála um. Það er nauðsynlegt að fólk geti leitað þjónustu á eigin forsendum en þurfi ekki að leita inn í tilvísanakerfi í heilbrigðisþjónustunni, einmitt það fólk sem á svo erfitt með að gefa sig fram og leita eftir þjónustunni. Það er einmitt þetta fólk sem er svo hikandi við að leita til læknis. Það vill frekar koma inn á eigin forsendum og geta farið út jafnvel aftur, komið svo seinna. Þetta er mjög mikilvægt atriði einmitt í þessu úrræði.

Hæstv. forseti. Við erum að tala um fjölgun öryrkja. Hvar er fjölgunin? (Forseti hringir.) Hún er einmitt þarna.