148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég kemst eiginlega ekki hjá því að líta svo á að hér sé líka verið að úthýsa þessu verkefni til aðila vinnumarkaðarins, þ.e. hvernig eigi að standa að lengingu fæðingarorlofsins og fjármögnun þess. Ég hlýt að spyrja mig: Það hlýtur auðvitað að vera ábyrgðarmál í því stefnuplaggi sem fjármálaáætlun er að fjármögnun sé einmitt tryggð fyrir þeirri grundvallarstefnu sem ríkisstjórn leggur upp með á hverjum tíma. Það er alveg ljóst að lenging fæðingarorlofs er töluvert kostnaðarsöm aðgerð, sennilega útgjöld upp á 4–5 milljarða á ári hverju ef á að fara með orlofið úr níu mánuðum í tólf. Ég sakna þess verulega í ljósi þess að fjármálaáætlun á að endurspegla fjárhagsramma ríkisfjármála næstu fimm árin, að þar sé ekki gert ráð fyrir þessu stóra loforði og raunar ekki minnst á það. Ég sé heldur ekki að gert sé ráð fyrir neinum auknum útgjöldum í t.d. bótakerfum (Forseti hringir.) hvað varðar barnabætur eða vaxtabætur, sem myndu þá endurspegla einhvers konar endurskoðun á skattkerfi til hagsbóta fyrir þá tekjulægstu.