148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:50]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Það er margnotað í samtali mínu og hv. þingmanns orðin að úthýsa. Ég held að ef okkur tekst á þessu kjörtímabili, líkt og ríkisstjórnin stefnir að í samstarfsyfirlýsingu sinni, að hækka bæði greiðslur úr fæðingarorlofi og lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði, þá held ég að það skipti mestu, að við náum þeim árangri. Ef það hefst með samtali við stjórnarandstöðuna, þá er það jákvætt. Ef það hefst með samtali við aðila vinnumarkaðarins, þá er það jákvætt. Ef það hefst með samtali við einhverja aðra í samfélaginu sem geta komið að því og útfært það, þá er það jákvætt. Það er það sem ég sagði í máli mínu áðan að jákvætt er að vinna saman og heyra sjónarmið ólíkra aðila. Hv. þingmaður á ekki að vera svona neikvæður í því. Það er gríðarlega jákvætt. Það veit hv. þingmaður sem sjálfur var einu sinni í forystu fyrir Samtök atvinnulífsins, að það er jákvætt þegar menn tala saman.

Ég segi bara aftur það sem ég sagði áðan: (Forseti hringir.) Ætlunin er á þessu kjörtímabili, líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála eða stefnuyfirlýsingu, að hækka greiðslur úr fæðingarorlofinu og lengja það, (Forseti hringir.) það verður gert í samtali við aðila vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) og vonandi með samþykki Alþingis í framhaldinu.