148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Barnabótakerfið hefur verið veikt á undanförnum árum og æ færri fjölskyldur fá að njóta stuðnings. Frá árinu 2013 hefur fjölskyldunum fækkað um 12.000 sem njóta stuðnings barnabótakerfisins. Í fjármálaáætluninni er ekki að finna að það eigi að styrkja þessi kerfi. Jöfnuður og jafnrétti er undirstaða hagsældar og á þetta hefur hæstv. forsætisráðherra margoft bent á í þessum sal og vitnað í kunna fræðimenn í þessum efnum.

Ég tel það vera, herra forseti, pólitíska ákvörðun að nýta jöfnunartækin sem eru barnabætur, húsnæðisstuðningur og hærri persónuafsláttur. Þetta eru þekktar staðreyndir. Verkalýðsfélögin hafa kallað eftir þessu og það er einungis pólitísk ákvörðun sem þarf að taka til að nýta þessi tæki. Það er ekki að sjá að það eigi að taka þessa pólitísku ákvörðun í fjármálaáætluninni eða á þessu kjörtímabili.

Kynbundinn launamunur er staðreynd á íslenskum vinnumarkaði. Konur hafa að meðaltali 13% lægri laun en karlar og óútskýrður launamunur er 5,7%. Stórar kvennastéttir vinna hjá hinu opinbera og þær búa til þennan launamun, þ.e. hið opinbera heldur kvennastéttunum niðri.

Eins og ég sagði áðan er jafnrétti og jöfnuður undirstaða hagsældar. Ég vænti þess að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki skipt um skoðun á því og sé sammála mér um það. Er það þá ekki pólitísk ákvörðun ríkisins og hins opinbera að minnka kynbundinn launamun með því að hækka kvennastéttir sérstaklega í þeim kjarasamningum sem blasa við?