148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og þakka henni fyrir að rifja sérstaklega upp tilvísanir mínar í ýmsa fræðimenn á sviði jöfnuðar. Ég get með ánægju líka upplýst hv. þingmann um að þær skattbreytingar sem þessi ríkisstjórn hefur ráðist í snúast einmitt um aukinn jöfnuð. Ég leyfi mér að minna hv. þingmann á að sú skattbreyting sem hér var fest í sessi um síðustu áramót snerist einmitt um að hækka fjármagnstekjuskattinn um tvö prósentustig. Sú hækkun fellur fyrst og fremst á þá sem mest fjármagn hafa.

Ef við skoðum hvaða breytur það eru sem sérstaklega valda ójöfnuði í vestrænum ríkjum er það ekki síst eignastaðan. Það er því það sem við ættum að vera að ræða hér. Eitt af því sem ég tel eðlilegt að við ræðum við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar um er hvernig við horfum til að mynda til þess ójöfnuðar sem birtist í eignastöðunni, kannski fyrst og fremst fremur en launabilinu sem er annar mælikvarði sem gefur kannski minni vísbendingar samkvæmt þeim fræðimönnum sem hv. þingmaður vísaði væntanlega til líka í máli sínu.

Ég ítreka að þetta samráð er fram undan og það er í takt við það sem ég sagði fyrir kosningar. Hvað er það sem við höfum séð í skattamálum á undanförnum árum, segjum áratug, á þeim áratug sem ég hef setið á þingi? Það er búið að ráðast í fjöldamargar breytingar fram og til baka, yfirleitt ekki með miklu samráði fyrir fram. Ég á mína sök í því eins og aðrir stjórnmálamenn sem hér hafa verið undanfarin tíu ár. Síðan hafa þær verið afturkallaðar. Þess vegna sagði ég fyrir kosningar: Sú breyting sem ég vil sjá í skattamálum hins opinbera er að það sé reynt að vinna að því að skapa aukna sátt um það mál, ekki bara á Alþingi, heldur líka með þeim mikilvægu aðilum vinnumarkaðarins sem eru þetta fólk í þessu landi. Þess vegna ítreka ég að ég held að það sé mikilvægt að sú vinna fari fram að við vöndum okkur við skattbreytingar, að hér sé ekki eitthvað lagt fram sem síðan verður afturkallað eftir einhver ár.

Síðan vil ég segja um kynbundinn launamun sem hefur sem betur fer minnkað hér á þessu landi, er núna 4,5% (Forseti hringir.) samkvæmt nýjustu mælingum Hagstofunnar, að það þarf auðvitað að skoða hvaða aðferðir virka. Við erum núna að vinna samkvæmt samþykkt síðasta þings um innleiðingu jafnlaunavottunar sem vonandi mun leiða til þess að kynbundnum launamun (Forseti hringir.) verði útrýmt. Ég reyni að koma aftur að kvennastéttum, fyrirgefðu, herra forseti, síðar í lokin á þessari umræðu.

(Forseti (SJS): Það verður að vera því að ræðutíminn er liðinn.)