148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er nú bara með gátu, hún er: Hversu mörgum rangfærslum er hægt að koma fyrir á tveimur mínútum? Ég held að hv. þm. Birgir Þórarinsson hafi slegið einhvers konar met hér í þessari svokölluðu fyrirspurn.

Ríkisstjórn vogunarsjóða! Komdu með annan, hv. þingmaður, segi ég nú bara. Það sem við erum að gera í þessari fjármálaáætlun er að nýta tekjur frá fjármálafyrirtækjum, m.a. með því að ráðast í löngu nauðsynlega uppbyggingu í samgöngukerfinu, nákvæmlega eins og ég boðaði fyrir kosningar, nákvæmlega eins og samstarfsflokkar mínir í ríkisstjórn boðuðu fyrir kosningar, á meðan flokkur hv. þingmanns boðaði það að fara ætti í stórfelldar fjárfestingar í að kaupa þriðja bankann, því að ríkið á nefnilega tvo fyrir. Þegar hluturinn í Arion banka var seldur, og hv. þingmanni er þetta auðvitað fullljóst, þótt hann kjósi að líta fram hjá því, var verið að efna samkomulag frá 2009 sem ríkisstjórnin sem sat 2013–2016 staðfesti í stöðugleikaskilyrðum og kom hér fram í ágætri sérstakri umræðu við formann Miðflokksins, flokks hv. þingmanns. Var því ekki andmælt af þeim ágæta formanni, heldur var þar tekið undir þau sjónarmið.

Hér er talað um bankaskattinn sem var settur á í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að fjármagna skuldaleiðréttinguna svokölluðu. Ég leyfi mér nú að minna hv. þingmann á að þegar sú skuldaleiðrétting var gerð upp í frægri skýrslu kom fram að hún hafi fyrst og fremst nýst þeim eignamestu í samfélaginu, en hins vegar hefur bankaskatturinn orðið núna níu sinnum hærri en fyrst þegar hann var settur á.

Síðan hlýt ég að leiðrétta það, og bið fólk um að hafa sig hægt hér í þingsal, úr því að það ræður ekki við að hlusta á sannleikann, hv. þingmaður, að þegar við skoðum sérstaklega aukninguna til örorkulífeyrisþega erum við að horfa á 6 milljarða aukningu á árinu 2019, sem er umtalsvert meira en í síðustu fjármálaáætlun þegar við skoðum málefni aldraðra. Þar má líka sjá aukningu upp á 2 milljarða. Hv. þingmaður verður að gæta þess að fara hér rétt með tölur.