148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ítreka bara það sem fram kom í máli mínu áðan, hv. þingmaður verður að lesa það sem hér stendur, til að mynda um örorkulífeyrisþega sem hann gerir að umtalsefni. 6 milljarða aukning á árinu 2019. Það er farið yfir það í texta um hvað sú aukning snýst. Þar er m.a. boðað að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Þetta kom fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra í gær, kemur hér fram í texta með áætluninni og það gengur auðvitað ekki, herra forseti, að við eigum umræðu um fjármálaáætlun án þess a.m.k. að eiga þá umræðu um þá fjármálaáætlun sem við erum að ræða. Við getum gagnrýnt það að þetta sé ekki nógu hratt gert, að útfærslan liggi ekki fyrir nú þegar, að þetta taki of langan tíma. Við getum gagnrýnt það, en höldum okkur við þær staðreyndir sem birtast í áætluninni.

Þegar kemur að bankaskattinum vil ég minna hv. þingmann á það sem ég sagði áðan. Hér er verið að fjármagna samgönguframkvæmdir með sérstökum viðbótararðgreiðslum út úr fjármálakerfinu. Bankaskatturinn var settur á sem tímabundin aðgerð í tíð ríkisstjórnarinnar 2013–2016 og framlengdur. Hann hefur skilað níu sinnum meiru en ætlunin var upphaflega því að hann var settur á sem aðgerð til að fjármagna sérstaka skuldaleiðréttingu. Þessi bankaskattur hefði ekki verið settur á nema af því að þrotabúin voru færð undir lögin um fjármálafyrirtæki 2012. Um þetta ríkti ágætissamstaða á sínum tíma, en það að falla hér í þá gryfju — falla hér í þá gryfju, segi ég — að fara að tala um að vogunarsjóðirnir séu að hafa fjármuni af öryrkjum er auðvitað ekkert annað en þvættingur.

Hér erum við að horfa til þess að tryggja örorkulífeyrisþegum raunverulegar kjarabætur um útfærslu í samráði við örorkulífeyrisþega þar sem markmiðin eru m.a. að aflétta krónu á móti krónu skerðingu. Þetta liggur algjörlega fyrir. Stefna flokks hv. þingmanns er hins vegar að tryggja að ríkið eigi ekki tvo banka heldur þrjá. Mér þætti gott að vita hvernig sú stefna á nákvæmlega að nýtast almenningi í þessu landi. (Gripið fram í: Það er enginn vandi.)