148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:00]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir. Það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli taka vel í hugmyndir af þessu tagi. Ég hef sjálfur verið að skoða einhverja slíka útfærslu á undanförnum misserum og hef miðað við það að persónuafslátturinn verði 300.000 kr. og fari síðan stiglækkandi. Það er auðvitað stillingaratriði og útfærsla. Við getum hugsað okkur að hann lækki um 2.000 kr. fyrir hverjar 10.000 kr. eftir því sem tekjur hækka o.s.frv. Það þýðir að þeir sem eru með liðlega milljón eða svo, 1.100.000, í tekjur á mánuði njóta einskis í persónuafslætti.

Það er miklu skynsamlegri og virkari leið en það tekjuskattskerfi sem við erum með, sem er meingallað. Ef við erum að reyna að rétta hlut þeirra sem lægri laun hafa með því að hækka til dæmis persónuafsláttinn, eða reyna að þoka skattprósentunni niður, þá er það mjög dýr aðferð. Bara þúsund krónur í hækkun á persónuafslætti sem gengur upp allan stigann þýðir u.þ.b. 2,7 milljarða, ef ég man rétt, í lægri tekjur fyrir ríkissjóð. Það sýnir eiginlega betur en nokkuð annað hvers konar galli er innbyggður í tekjuskattskerfinu.

Ég ætla bara að minna hæstv. forsætisráðherra á að ef menn fara hins vegar þá leið að búa hér til fjölþrepatekjuskatt þá búa menn fyrst til svo flókið og óréttlátt skattkerfi með öllum jaðarsköttum og öllum þeim gildrum sem menn sjá ekki fyrir að ég vara eindregið við því. En ég fagna alveg sérstaklega að forsætisráðherra skuli vera áhugasamur um að þessi (Forseti hringir.) úttekt fari fram og að það verði gert í samráði við samtök á vinnumarkaði.