148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að grípa til varna fyrir fjölþrepaskattkerfið. Ég stenst ekki mátið í því af því auðvitað þekki ég þau áhrif sem hv. þingmaður vísar í, þ.e. jaðaráhrif af slíku kerfi, og ekkert skattkerfi er fullkomið. Hins vegar þurfa fjölþrepakerfi ekki endilega að vera neitt flóknari en önnur. Auðvitað erum við með fjölþrepakerfi í dag. Við erum með tvö þrep í tekjuskattskerfinu, við erum ekki með flatt kerfi af því við viljum hafa ákveðin jöfnunaráhrif.

Annað sem hefur verið rætt í kringum það að við séum með tvö þrep. Eins og bent hefur verið á af ASÍ þá fylgja þrepin ekki sams konar vísitölu, þ.e. annars vegar erum við með launavísitölu og hins vegar neysluvísitölu í því hvernig þrepin þróast sem skapar ákveðið misvægi í kerfinu. Þess vegna tel ég nú fulla ástæðu til þess að við endurskoðum kerfið, að við skoðum þær leiðir sem einmitt hefur verið flaggað af samtökum launþega ekki síst. Þar hefur verið horft til persónuafsláttarins. Ég er sammála hv. þingmanni að það er ekki endilega raunhæf leið að hækka persónuafsláttinn flatt, frekar eigum við að skoða þessa þrepaskiptingu — í raun má segja að þetta sé kannski öfug þrepaskipting. Það er auðvitað ákveðið flækjustig í því líka. En fremur en að leggja til nákvæma útfærslu á því hér þá er horft til þess að við förum í samráð.

Við eigum líka eftir að taka þetta hér til umræðu á Alþingi því við þurfum auðvitað líka, eins og ég sagði hér í mínum upphafsorðum, ekki bara að horfa til þess að reyna að skapa sátt um okkar skattkerfi við aðila vinnumarkaðarins, heldur líka hér á þingi. Það er auðvitað umhugsunarefni líka.

Af því ég nefndi hér fjölda skattbreytinga undanfarinn áratug. Ef við bara berum okkur saman til að mynda við Norðurlöndin þar sem hefur verið ákveðið vinnumarkaðslíkan, menn hafa verið sáttir um það að vinna innan ákveðins vinnumarkaðslíkans, þar erum við heldur ekki að sjá gríðarlegar breytingar á tekjuskattskerfum eða bótakerfum á milli ólíkra ríkisstjórna. Við sjáum ekki þessar sviptingar í kringum ríkisstjórnarskipti á Norðurlöndum. Það væri auðvitað mjög ákjósanlegt ef við gætum (Forseti hringir.) komið okkur á þann stað að við værum með tiltölulega sátt um það hvernig við ætluðum að tryggja þetta jöfnunarhlutverk.