148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég kem hérna upp fyrir hönd Pírata af því að ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fer með Alþingi og eftirlitsstofnanir, forsetann, stjórnarskrána og æðstu stjórnsýsluna, sem eru málefnasvið á borði forsætisráðherra samkvæmt forsetaúrskurði. Þess vegna vil ég fókusera umræðu mína á þau málefni þessar tvær mínútur og þær tvær sem ég hef aftur.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að í þágu alls almennings eigi að efla Alþingi, styrkja það með markvissum hætti og auka áhrif þess. Það sem ég vil fá mjög skýrt frá hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur — það sem ég raunverulega vil er að sjá þetta virka. Ég vil vita hvort fjármálaáætlunin vinni í áttina að þessu en setji ekki bara það að ekki megi gera neitt annað, þ.e. hvar eru mörkin á því að við getum gert þetta. Þetta er grundvallaratriði til að við getum sinnt hlutverki okkar.

Það kemur fram í fjármálaáætluninni sjálfri — þetta vita náttúrlega allir en það er sérstaklega nefnt hér, með leyfi forseta:

„Meginhlutverk Alþingis er lagasetning og eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Skrifstofa Alþingis annast stjórnsýslu þingsins og hefur það verkefni að tryggja faglega umgjörð um starfsemi Alþingis þannig að þingmenn geti sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað samkvæmt stjórnarskrá, þingsköpum og öðrum lögum.“

Ef þetta væri hægt í raunveruleikanum og það væri raunverulegur vilji til að vinna í áttina að því og eiga samtal ef hlutirnir eru ekki að virka er mitt hlutverk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að geta sinnt því eftirliti. Mitt hlutverk í forsætisnefnd er að geta sinnt eftirliti með stjórnsýslu Alþingis og þá væri ég kominn á þann stað að ég væri sáttur hvað þá þætti varðar að geta unnið faglega fyrir landsmenn að þeim verkefnum. Þetta er samtal sem ég vil nota tækifærið til að eiga við hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, og heyra hennar nálgun á þetta.