148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þessi sjónarmið. Við erum á þeim stað núna að hér voru samþykkt lög um opinber fjármál og fjármálaáætlun er lögð fram í takt við þau. Ég er ein af þeim sem gagnrýndu þessi lög á sínum tíma. Ég gagnrýndi tvennt, annars vegar 7. gr. þar sem eru sett tiltekin viðmið í skuldahlutföllum og öðru en hins vegar fannst mér hlutverk þingsins kannski ekki nægilega skýrt skilgreind í lögunum. Þingið fer með fjárstjórnarvald samkvæmt stjórnarskrá, þetta hefur verið til umræðu á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég sé hv. þm. Harald Benediktsson hér og veit að hann var meðal þeirra sem leiddu umræðu um hvernig við tryggðum fjárstjórnarvald þingsins í takt við ný lög um opinber fjármál. Eins og ég skil hv. þingmann er hann að velta fyrir sér aðkomu þingsins að fjármálaáætlun þegar framkvæmdarvaldið leggur hana fram. Er eðlilegra að við eigum hugsanlega aukið samráð við þingið á fyrri stigum, áður en fjármálaáætlun er lögð fram, fremur en að þingið geri síðan breytingar eins og við þekkjum í þinglegri meðferð? Það væri þá að færa okkur meira í átt til norrænna þinga þar sem samráðið er meira fyrir fram og hefur verið eitt af því sem ég hef aðhyllst en hefur verið gagnrýnt af öðrum, sem eru ósammála slíku verklagi, með því að það kalli á of mikið samspil löggjafar- og framkvæmdarvalds. Þarna hafa tveir ólíkir skólar tekist á.

Ég veit að fjármálaráðuneytið hyggst á næstu mánuðum fara yfir reynsluna af lögum um opinber fjármál þessi fyrstu tvö ár. Ég held að það sé mjög dýrmætt af því að ég á fund með þingflokksformönnum og forsætisnefnd á mánudaginn um þinghaldið fram undan og fleiri mál. Ég vona að hv. þingflokksformenn hafi heyrt af fundinum — en þeir hafa greinilega ekki heyrt af honum þannig að hér eru tíðindi á ferð. En ég myndi gjarnan vilja ræða (Forseti hringir.) aukna aðkomu Alþingis að ákvörðun um hvort ástæða sé til að skoða þessi lög með tilliti til aðkomu Alþingis.