148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:14]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við fjármálaáætlun, þá fyrstu sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur leggur fram. Óska ég hæstv. ráðherra til hamingju með það. Í þessu plaggi koma fram helstu áherslur og stefnumið hæstv. ríkisstjórnar. Það er ánægjulegt og í raun eðlilegt að áhersla skuli vera á það að samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og stefnan sett á samfélagslegan stöðugleika og að lífsgæði breytist til framtíðar. Ég fagna þessum áherslum því að hér er brugðist myndarlega við ákalli um fjárfestingarþörf eftir strangt útgjaldaaðhald.

Hér er sannarlega verið að auka útgjöld á mörgum sviðum og ætlunin að verja þeim í mikilvæga samfélagslega innviði. Hér gefst ekki tími til að telja alla þætti upp, en þó vil ég nefna atriði eins og aukin framlög til nýsköpunar, rannsókna- og þekkingargreina, byggðamála, þar sem öflugri byggðaáætlun er fylgt eftir, samgöngu- og fjarskiptamála, sem eru grunnur að velferð um allt land og raun forsenda þess að reka hér öflugt samfélag, til ferðaþjónustu, umhverfismála, menningar og lista, íþrótta- og æskulýðsmála, framhaldsskóla, háskóla, sjúkrahúsþjónustu, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, lyfja og lækningavara, málefna fatlaðs fólks, stjórnsýslu ferðamála, málefna aldraðra, fjölskyldumála, húsnæðisstuðnings og lýðheilsu.

Hæstv. forseti. Hér í þessum sal hefur gagnrýnin ýmist verið á þann veg að verið sé að auka útgjöld um of eða að ekki sé nóg að gert. Í þessum sal heyrðist í gær jafnvel talað um gæluverkefni. Sitt sýnist náttúrlega hverjum. En verkefnin eru ærin og ákall hefur verið um uppbyggingu innviða. Því langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hver er hennar sýn á þessar áherslur hæstv. ríkisstjórnar og þá út frá þeim vinkli að allir njóti ávinnings af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og að hér breytist lífsgæði til framtíðar?