148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Þetta er ekki svona einfalt. Ég var í þessari starfsgetumatsnefnd. Ég veit um hvað þetta snýst og ég veit hvað var uppi á borðum. Við vorum á móti, við og Vinstri græn, og fleiri vorum á móti þessu. Það sem ég óttast er að verið sé að dusta rykið af þessum gömlu hugmyndum og fara að gera sömu hluti. Ég vona svo heitt og innilega að það verði ekki gert.

Síðan er annað sem hæstv. forsætisráðherra talaði um, þ.e. að draga úr kostnaði fyrir sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Ég fæ alltaf hroll þegar er verið að draga úr. Ein króna getur þýtt að verið er að draga úr. Af hverju gerum við það ekki núna strax þannig að þeir sem minnst hafa í þjóðfélaginu njóti þess? Ég veit um fólk sem hefur ekki efni á að fara til læknis. Ég veit um fólk sem hefur ekki efni á því að kaupa lyf. Það er skelfilegt. Svoleiðis á það ekki að vera. Þetta fólk á að fá þetta ókeypis. Við eigum að tryggja það.

Síðan er annað sem mig langar að ræða um, þ.e. að maður lendir á vegg þegar maður talar við heilbrigðisráðherra og jafnréttis- og félagsmálaráðherra um Hugarafl. Þetta er spurning upp á líf og dauða. Þetta er fólk sem er mikið veikt. Ég segi fyrir mitt leyti: Við verðum að tryggja að það sem búið er að byggja upp, Hugarafl og geðheilsuteymi, verði ekki raskað. Við verðum að sjá til þess. Það skiptir engu máli hvað við ætlum að byggja góð teymi í kringum það, það á ekki að rífa niður annað gott á meðan. Það væri eins og ef við værum að fara að byggja nýjan spítala við Hringbraut og af því að hann væri svo góður byrjuðum við að rífa strax spítalann í Fossvogi. Svoleiðis vinnum við ekki. Þetta gildir sérstaklega um fólk sem getur illa varið sig. Við erum að tala um illa veikt fólk. Það á ekki að þurfa að standa í því að berjast fyrir tilverurétti sínum vegna þess að búið er að finna leið sem það vinnur sjálft að til þess að bjarga sér.