148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Fjármálaáætlun hverrar ríkisstjórnar er grundvallarplagg. Það sagði hæstv. forsætisráðherra og þáverandi þingmaður í ræðu fyrir innan við einu ári. Síðan er ég að hlusta hér á hæstv. ráðherra svara þingmönnum og byrja á því að ræða meðal annars hversu mikilvægt væri að tryggja fjármögnun aðstoðarmanna ráðherra. Gott og vel. Ég skil það vel. Það er búið að setja það inn. En það er hvergi minnst á það í fjármálaáætluninni hvernig á að efla þingið sjálft, fjárhagslegan stuðning þingsins sem umhverfi þess alls. Við heyrðum það meðal annars í ræðu hæstv. forsætisráðherra á síðasta ári að hún saknaði þess að ekki væri verið að efla og styrkja þingið, ekki síst þegar verið er að ræða um gerð og viðfangsefni sem tengist fjármálaáætlun.

Við heyrum það líka hvernig þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins taka á því þegar til þeirra er beint fyrirspurnum. Þegar verið er að fara fram á það að framkvæmdarvaldið sinni því að leggja skýrslu fram fyrir þingið þá er verið að gera líti úr eftirlitshlutverki þingsins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða pólitísku sýn, af því ég sé ekki pólitísku sýnina varðandi það að efla þingið í fjármálaáætluninni, ætlar hún að beita sér fyrir núna þegar áætlunin kemur til umfjöllunar þingsins, þannig að þingið verði raunverulega styrkt, ekki bara tala um það hvernig eigi að efla framkvæmdarvaldið? Ég vil fá að heyra það hjá ráðherra hvernig eigi að efla eftirlitshlutverk þingsins.

Satt best að segja óar mig við því að heyra þær raddir, sem koma ekki síst frá Sjálfstæðisflokknum, þegar gert er lítið úr fyrirspurnum þingmanna, þegar gert er lítið úr skýrslubeiðni þingmanna til ríkisstjórnarinnar. Hvernig ætlar ráðherra sjálfur að hlusta á eigin gagnrýni fyrir ekki ári um brýna nauðsyn þess að efla þingið? Ég vil gjarnan fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvað hún ætlar að gera í því að efla þingið? Ekki bara tal.