148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held nú að það sé sameiginlegt áhugamál okkar að efla þingið. Það hefur svo sannarlega ekki bara verið talað því að strax í síðustu fjárlögum voru lagðir til auknir fjármunir inn í þingflokka, sem skiptir verulegu máli, og einnig framlag til að styrkja löggjafar-, fjárstjórnunar- og eftirlitshlutverk Alþingis með stuðningi við nefndastörf og þingflokka. Þetta kom inn í síðustu fjárlögum. Gert er ráð fyrir aukningu síðan á árinu 2019 hvað varðar hækkun á framlagi til þingflokka.

Komin var upp sú staða að þingflokkar réðu ekki einu sinni við að ráða sér starfsmenn. Ég held að hv. þingmaður sé mér sammála um að það er mikilvægt að við gerum ráð fyrir þessu í fjármálaáætlunum okkar og fjárlögum, hvernig við getum búið betur að þingflokkunum.

Lagðar er til ákveðnar úrbætur í því, fyrir utan byggingu Alþingishússins sem lengi hefur verið boðuð. Ég held reyndar að það skipti líka máli fyrir starfsaðstæður þingmanna að safna þeim saman í eina byggingu. Þó að það sé nú aldrei vinsælt að tala fyrir byggingum, sérstaklega ekki þegar kemur að Alþingi, held ég að þetta sé löngu tímabær úrbót fyrir þingmenn sem þurfa jafnvel að flytja á hverju ári á milli skrifstofa. Aðstæður hafa satt og segja verið óásættanlegar undanfarin ár, menn hafa jafnvel verið að kljást við myglu í sínu skrifstofuhúsnæði, svo að maður vísi til þess.

Efling þingsins snýst ekki bara um aukin fjárframlög eins og hv. þingmaður veit kvenna best. Þetta snýst líka um vinnulag. Það má ekki gera lítið úr því. Þegar hv. þingmaður segir að hæstv. forsætisráðherra tali bara og geri ekkert: Ég er bara ósammála því að það sé rétt nálgun á það sem ég hef verið að gera. Ég hef staðið fyrir því að hér er verið að efna til miklu meira þverpólitísks samstarfs en við höfum áður séð, hvort sem er á vettvangi stjórnarskrármála, þar sem ég sit sjálf við borðið, eða í öðrum málaflokkum þar sem við höfum kallað eftir því að þingflokkarnir komi að; að þeir tilnefni sitt fólk til að taka mikilvægar ákvarðanir sem koma (Forseti hringir.) ekki hér inn sem hefðbundin þingmál fyrr en á miklu síðari stigum. Ég held að við eigum að vinna meira þannig. Ég er sammála hv. þingmanni, þetta snýst nefnilega ekki bara um tal, en þá verður líka að horfa til þess sem er gert.