148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er nákvæmlega það sem ég vil beina til hæstv. forsætisráðherra, hvernig menn setja fram orð sín. Ég er ekki að beina þessari gagnrýni að forsætisráðherra einum heldur forsætisráðherra sem situr við endann á ríkisstjórnarborðinu og stjórnar því hvernig umræðuhefðin þróast. Það veldur mér verulegum áhyggjum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er að umgangast valdið í þessum þingsal, hvaða viðhorf við fáum í stjórnarandstöðunni. Þegar við leggjum fram fyrirspurnir og skýrslubeiðnir er gert lítið úr þessu eftirlitshlutverki þingsins. Ég vil hvetja hæstv. forsætisráðherra til að brýna samstarfsfólk sitt í ríkisstjórn til að bera virðingu fyrir þinginu. Ég veit að hún gerir það en hún þarf að fá fleiri í lið með sér hvað það varðar.

Talandi um ríkisstjórnina. Hún er eins og margoft hefur komið fram málamiðlunarríkisstjórn. Gott og vel. En þegar við erum búin að taka allar umbúðirnar af öllu sem kemur frá ríkisstjórninni kemur fram þessi hættulega blanda sem við sjáum varðandi fjármálaáætlunina sem slíka. Hæstv. ráðherra kallaði á sínum tíma eftir gegnsæi. Gegnsæið hefur engan veginn aukist við þessa fjármálaáætlun. Hefur hún ekki hlustað sína eigin gagnrýni frá því í fyrra? Við sjáum þennan hringlandahátt varðandi það hvað á að fara mikið í samgöngumál: Einn daginn á bara að uppfylla allar óskir, svo allt í einu rennur upp ljós fyrir hæstv. samgöngumálaráðherra, það er ekki hægt að gera það. Hvað á þá að fara að gera? Hvernig á að fjármagna þetta? Þetta er mikið ógegnsæi.

Þyngst þykir mér að fylgjast með því að það vantar alla pólitík, þessa pólitísku leiðsögn eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði: Konan, sósíalistinn við borðsendann, situr þarna, en hver er hennar pólitíska leiðsögn þegar kemur að kvennastéttunum? Hvar koma annað en kaldar kveðjur frá heilbrigðisráðherra? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að taka kvennastéttirnar, þannig að við getum skilað þeim raunverulegum ábata til lengri tíma? Þar óska ég pólitískrar forystu og leiðsagnar frá ríkisstjórninni, ekki síst vegna þess að það er hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir sem situr þar. Það er hrópandi í plagginu varðandi fjármálaáætlun (Forseti hringir.) að ekki er verið að veita neina skýra leiðsögn varðandi kvennastéttir, hvað þá skattamálin. Það er efni í (Gripið fram í.) mun lengri umræðu.