148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög póetíska ræðu. Hv. þingmaður varpaði fram allmörgum spurningum þannig að það verður erfitt að svara þeim öllum.

Byrjum á örorkulífeyrisþegum. Hv. þingmaður vísar í viðbrögð Öryrkjabandalags Íslands við áætluninni. Ég hef líka kynnt mér viðbrögð Öryrkjabandalags Íslands við síðustu fjármálaáætlun. Þau voru töluvert hófstilltari þó að þar væri í raun gert ráð fyrir minni fjármunum til framfærslu örorkulífeyrisþega. Ég held að fólk verði bara að horfa á staðreyndirnar og tölurnar sem hér eru lagðar fram en ekki vitna í frasa um að þetta sé ávísun á fátækt og eymd, eins og hér sé beinlínis boðaður niðurskurður á framlögum til örorku þegar staðreyndin er sú að hér er verið að auka um 6 milljarða á næsta ári.

Tökum það sem hv. þingmaður segir um tekjuskattslækkun sem mun skila þessu og þessu, eins og hv. þingmaður orðar það. Hér er ég búin að fara margoft yfir það að í undirliggjandi forsendum þessarar áætlunar er gert ráð fyrir skattalækkunum sem nemi, eða samsvari eins og það er orðað mjög skýrt, 1 prósentustigs tekjuskattslækkun. Síðan er farið yfir hvaða leiðir séu færar í því til að tryggja að slík skattalækkun myndi þá gagnast best hinum tekjulægstu. Ég hef rætt hér um persónuafsláttinn. Ég spyr hv. þingmann: Er hann ósammála mér um að það sé gott að við ræðum á þingi um að skoða slíkar leiðir og aðferðir og hvort við teljum þær ná þeim markmiðum sem við viljum ná, sem og samspili við bótakerfið? Finnst honum ekki jákvætt að við ætlum að reyna að taka þessa umræðu, ekki bara við aðila vinnumarkaðarins heldur líka hér á Alþingi, þannig að við getum skapað aukna sátt um skattkerfið? Eða vill hv. þingmaður sjá annars konar vinnubrögð?

Ég vísa líka til háskólanna. Hv. þingmaður var með ansi mörg orð hér en við sjáum mun meiri aukningu til háskólastigsins, sem ég er mjög stolt af eftir að hafa setið sem menntamálaráðherra í ríkisstjórn á tímum sem þurfti að skera niður til þessara mikilvægu stofnana. Við erum að horfa á að háskólastigið er loksins á leiðinni þangað sem það á heima í okkar útgjaldamálum.