148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:47]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmálanum stendur skýrt að þið ætlið að ná OECD-meðaltalinu fyrir 2020. Það kostar 6,7 milljarða. Þið ætlið að setja rúma 2 milljarða til 2023. Það loforð er svikið. Háskólinn fær einn þriðja af því sem þið lofuðuð.

Það er gott og vel að taka samtal um bótakerfið en þið eruð búin að setja þak á barnabætur og vaxtabætur. Það má ekki setja krónu meira í barnabætur og vaxtabætur samkvæmt áætluninni.

Svo stendur skýrt í áætluninni: Gert er ráð fyrir 1 prósentustigs lækkun á tekjuskatti. Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir flatri lækkun. (Gripið fram í.) Nei, á bls. 15 stendur skýrum stöfum að þið ætlið að lækka tekjuskattinn um 1 prósentustig. Það mun gagnast hálaunafólkinu þrisvar sinnum meira en lágtekjufólkinu. Þetta er það sem við í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni gagnrýnum. Þetta er ekki í anda Vinstri grænna, enda eru áhrif Vinstri grænna sama sem engin á þessa áætlun, hvað þá skattapólitíkina.

Í upphafi svars ráðherrans var talað um að menn ættu ekki að nota frasa í þessari umræðu. Frasinn sem ég vísaði í var einfaldlega gagnrýni Öryrkjabandalags (Forseti hringir.) Íslands. Það sjálft, þetta hagsmunabandalag 19.000 öryrkja í landinu, hefur einmitt notað þessi orð, að þessi áætlun sé ávísun á fátækt og eymd. Og það er sorglegt.