148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þá er ég ekki sammála því að þessi áætlun sé ávísun á fátækt og eymd. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er sammála því mati. Hann hlýtur að horfa til þess sem kemur hér fram sem er fyrirhugað um einföldun bótakerfisins, afnám krónu á móti krónu skerðingar og töluvert aukna fjármuni í þetta kerfi. Ég held að það myndi þjóna umræðunni ágætlega ef við horfðum til þess sem er fyrirhugað að gera og þeirra fjármuna sem eru settir í það. Það er eingöngu það sem ég var að segja áðan.

Úr því að við erum komin í að ræða einstakar blaðsíður fjármálaáætlunar vil ég vísa hv. þingmann á bls. 59 þar sem er rætt sérstaklega um það samráð sem er fram undan um tekjuskattskerfið. Hv. þingmaður segir að það sé ágætt að fara í samtal og ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt. Fólk hefur gaman af að rifja upp gamlar ræður og ég myndi gjarnan vilja fá tækifæri til að rifja upp ýmsar gamlar ræður hv. þingmanns sem hér situr með mér í salnum en ætla ekki að nýta tíma minn í það. Það sem ég sagði fyrir kosningar var að það er kominn tími til þess, eftir allar þær skattbreytingar sem við höfum gengið í gegnum, að við horfum aðeins til þess hvernig (Forseti hringir.) við getum skapað aukna sátt um íslenskt skattkerfi. Þess vegna finnst mér kúnstugt að heyra fólk kalla eftir ákvörðunum teknum helst af sem fæstum þegar við ættum einmitt að vera að horfa til þess að vinna öðruvísi. (Forseti hringir.) Ég hefði haldið að þingmaður fagnaði því.