148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og þau svör sem hér eru komin. Það er hins vegar mjög undarlegt að sitja í þessum sal og sjá forsætisráðherra verða pirraðri og pirraðri eftir því sem líður á umræðuna. Forsætisráðherra á einfaldlega að vera að svara spurningum frá þingmönnum og verja þessa vonlausu fjármálaáætlun. Þess í stað stendur ráðherra upp og eys skömmum yfir þingmenn vegna spurninga þeirra. Er greinilega pirruð yfir því að það er verið að snerta einhverjar viðkvæmar taugar. Líklega er eitthvað farið að falla á geislabauginn hjá ríkisstjórn kampavíns og vogunarsjóða.

Ég nefndi vogunarsjóði. Þó svo að það hafi fengið hárin á forsætisráðherra til að rísa hér áðan er það samt þannig að þessi ágæta kampavínsstjórn hefur gersamlega legið flöt fyrir þeim sem græða hvað mest hér á Íslandi. Það sjáum við á þeim aðgerðum sem lúta að því að lækka eða fella nánast niður þennan bankaskatt. Það er verið að lækka hann um 60%.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið nær að nota það svigrúm sem þarna næst með bankaskattinum til að fella t.d. niður krónu á móti krónu skerðingar fyrir öryrkja? Þetta er svipuð tala. Hvers vegna er það ekki bara gert? Ég hlýt líka að setja aðeins ofan í við hæstv. ráðherra. Ég tel að ráðherrann sé að blekkja, ég ætla að nota orðið blekkja, þegar hún kemur hér upp og segir að 6 þús. milljarðar fari til öryrkja og talar eins og það sé til þess að auka bætur til … (Gripið fram í.) 6 milljarðar, það er rétt, fyrirgefðu, 6 þús. milljarðar er svolítið önnur tala, í að auka bætur til öryrkja. Það mætti skilja ráðherra þannig. En það er ekki þannig. Það er verið að setja 6 milljarða í að mæta fjölgun öryrkja. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Væri ekki nær að taka á þessum bótum, auka svigrúmið um það sem öryrkjar óska eftir? Er það ekki rétt sem ég segi, hæstv. ráðherra, að þessir 6 milljarðar eru bara til að mæta fjölgun öryrkja?

Ég spyr hæstv. ráðherra líka um það sem kom fram í umræðu í gær, gott ef það var ekki hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem sagði það, að það væru nokkuð góðar vísbendingar og öryggi fyrir því að fjármagnskostnaður neytenda myndi lækka ef bankaskatturinn yrði lækkaður sem þessu næmi. Hefur forsætisráðherra einhverja tryggingu fyrir því að fjármagnskostnaður fólksins í landinu muni lækka við það að bankaskatturinn sé lækkaður?