148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fjármálaáætlun er auðvitað bara plagg sem byggist á bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma, fyrirætlunum ríkisstjórnar á hverjum tíma, fram í tímann, en síðan er hún bara mannanna verk. Alþingi sem fer með fjárstjórnarvaldið samkvæmt stjórnarskrá hefur alltaf að mínu mati svigrúm til að bregðast við. Ég held að hv. alþingismenn eigi ekki að fallast á þá skoðun sem maður heyrir stundum, að þegar eitthvað hafi verið samþykkt í fjármálaáætlun sé það nánast óumbreytanlegt, (Gripið fram í.) eins og eitthvert náttúrulögmál. Þannig er það ekki. Við erum með hér lýðræðiskerfi, við erum með fjárstjórnarvald sem liggur hjá Alþingi og auðvitað hefur Alþingi svigrúm til að bregðast við aðstæðum sem upp kunna að koma.

Um vinnumarkaðsmálin almennt vil ég segja að við þurfum að fara að stefna til lengri tíma á að koma á skýrari ramma um vinnumarkaðinn. Hv. þingmaður talaði til að mynda um lagasetningar á verkföll sem voru allalgengar á kjörtímabilinu 2013–2016. Við þurfum að fara að horfa á að fá meiri sátt um ramma vinnumarkaðarins, horfa meira til Norðurlandanna, (Forseti hringir.) hvernig unnið er þar. Það er mikið verk að ná því en einfaldir hlutir eins og hvernig haldið er á málum gagnvart embætti ríkissáttasemjara þar er nokkuð sem ég tel að við gætum tekið okkur til fyrirmyndar.