148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Þetta er stuttur tími en það er alveg rétt að við viljum gjarnan hafa gott samráð við aðila vinnumarkaðar um skattbreytingar. En mér sýnist hins vegar að ríkisstjórnin hafi enga sjálfstæða skoðun á skattbreytingu eða skattstefnu og sé þvert á móti að bíða eftir skilaboðum frá aðilum vinnumarkaðarins um hvaða skattbreytingar eigi að ráðast í.

Það má vera að ríkisstjórnin komi sér ekki saman um þær og hafi þar af leiðandi ákveðið að úthýsa þessu verkefni til aðila vinnumarkaðarins. Það er vissulega möguleiki í stöðunni. Ég hefði viljað sjá miklu meira samráð strax frá upphafi við minni hlutann því að ég held að það rótleysi sem hér er lýst í skattkerfinu sé ekki vegna samráðsleysis við aðila vinnumarkaðarins heldur vegna þess að ekki er nægt samráð milli meiri hluta og minni hluta um skattapólitík hverju sinni. Þar er kannski stærsti vandinn.

En mér sýnist að þegar öllu er á botninn hvolft hafi Vinstri græn fengið 2 milljarða til viðbótar inn í ríkisfjármálaáætlun í árslok 2022 gegn því að kyngja (Forseti hringir.) skattapólitík Sjálfstæðisflokksins um að lækka skatta ofan í þetta um 25–30 milljarða. Það þykja mér heldur rýr býti.