148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka forsætisráðherra fyrir framlag hennar hér og öll þau svör sem hún hefur veitt.

Í okkar samtíma er eitt stærsta málið sem við blasir að rétta hlut þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Ég tel reyndar að um þetta sé allvíðtæk samstaða og mikill skilningur á þessu.

Það er hins vegar þannig að þessi fjármálaáætlun er ákaflega haganlega gerð í þessu tilliti. Í henni eru eins og tvær víddir, með leyfi að segja. Það er einhvers konar framtíðarvídd. Til að mynda er á bls. 57–58 verið að reifa hvernig skattkerfið gæti litið út og komið betur út fyrir þá sem lakar standa, t.d. að fara eins og vel þekkt er um farveg persónufrádráttar og slíkt og sömuleiðis er aftar í plagginu fjallað um að bæta kjör öryrkja og „afvikla“ allar þessar tengingar. Þetta er önnur víddin. En hún er einhvern tíma í framtíðinni. Það sem blasir við okkur í núinu er alveg skýrt. Það er yfirlýsing um að lækka neðra þrep tekjuskattsins þannig að það flæði yfir allan tekjuskalann án þess að það nýtist þeim sem lakast standa umfram aðra. Það á að lækka bankaskatt. Og með leyfi að segja, hæstv. forsætisráðherra, þá hagnast enginn meira á þeirri aðgerð en þeir ágætu vogunarsjóðir sem svo margoft hafa verið nefndir hér. Það á að, og ég vona að ég verði leiðréttur, (Forseti hringir.) loka Hugarafli og það á að byggja Landspítalann á óhagkvæmum stað.