148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Efling heilbrigðisþjónustunnar er ein aðaláhersla núverandi ríkisstjórnar. Raunar tel ég svo vera að það sé áherslan hér á Alþingi, þvert á flokka, að það sé löngu tímabært að leggja aukna áherslu á þann málaflokk.

Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu óháð efnahag og búsetu. Áherslan á eflingu heilbrigðisþjónustunnar setur mark sitt á þá fjármálaáætlun sem er til umræðu. Þannig er gert ráð fyrir að árleg framlög til heilbrigðismála verði 40 milljörðum hærri á árinu 2023 en þau eru samkvæmt fjárlögum ársins í ár. Þetta er hækkun um ríflega 19% að raunvirði. Framlög til heilbrigðismála verða sem sé í lok tímabilsins um 249 milljarðar kr. á ári.

Stofnkostnaður, m.a. vegna byggingarframkvæmda, verður 101 milljarður á tímabilinu. Þá erum við náttúrlega fyrst og fremst að tala um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut en auk þess verulegt átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Markviss skref verða tekin í þá átt að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabili fjármálaáætlunar þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis í heilbrigðiskostnaði verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum.

Eitt af stærstu verkefnum tímabilsins er að gera skýra og markvissa heilbrigðisstefnu. Ég tel afar mikilvægt að halda því til haga í umræðunni að það dugar ekki eitt og sér að auka framlög til málaflokksins heldur þarf líka að skerpa sýnina á verkefnin sem undir málaflokkinn falla. Góð heilbrigðisþjónusta þarf nefnilega að byggja á skýrri heilbrigðisstefnu sem er hluti af samfélagssáttmálanum og snýst um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustunni óháð efnahag eða búsetu fólks. Um leið þarf að fjalla um lýðheilsu og forvarnastarf í heilbrigðisstefnu. Efling þeirra þátta er auðvitað mikilvæg til að bæta og viðhalda góðri heilsu, auka lífsgæði og draga úr beinum og óbeinum kostnaði samfélagsins til framtíðar. Það er margsýnt og sannað að fjármagn sem sett er í lýðheilsu og forvarnastarf skilar sér margfalt. Gerð heildstæðrar heilbrigðisstefnu er nauðsynlegt skref í átt að bættri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn og tryggir skynsamlegri nýtingu fjármagns í heilbrigðiskerfinu.

Í fjármálaáætlun kemur fram að áætlað er að skapa aðstæður fyrir aukna göngudeildarþjónustu á Landspítala auk áframhaldandi framkvæmda við spítalann. Einnig verður ráðist í byggingu nýs legudeildarhúsnæðis við Sjúkrahúsið á Akureyri. Stefnt er að því að líknar- og lífslokameðferð fyrir Vestfirði, Norðurland og Austurland verði samhæfðari frekar en nú er í samræmi við skýrslu sem mér var afhend þar um.

Áhersla verður lögð á að fjölga menntuðu heilbrigðisstarfsfólki sem býr við gott starfsumhverfi, markvissa þverfaglega teymisvinnu, sem við sjáum þegar vaxandi í kerfinu, tækifæri til starfsþróunar og þátttöku í þekkingar-, þróunar- og vísindastarfi, framlög til geðheilbrigðismála verða aukin og með það að markmiði að fullfjármagna aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Starfsfólki á göngudeild barna- og unglingageðdeildar verður fjölgað í samræmi við stefnu og sömu aðgerðaáætlun.

Þá verður unnið á markvissan hátt að því að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar og efla hana sem fyrsta viðkomustað, auka þar þverfaglega teymisvinnu innan heilsugæslunnar, fyrirkomulag sjúkraflutninga verður tekið til endurskoðunar og raunar er sú vinna hafin. Og svo verður stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma sem hér hefur verið nefnd. Fjölgunin er um 300 frá fjármálaáætlun síðasta árs. Samtals verða byggð 790 hjúkrunarrými á tímabilinu, 550 ný þar af og 240 verða endurnýjuð. Þá verður dagdvalarrýmum fjölgað og stefnt að því að setja á fót sérstaka deild með hjúkrunarrýmum til að mæta þörfum aldraðs fólks sem glímir við samþættan geðheilbrigðis- og fíknivanda.

Skipulögð heilsuvernd aldraðra verður innleidd í öllum heilbrigðisumdæmum og einnig sérhæfð heimahjúkrun. Áhersla verður lögð á áframhaldandi uppbyggingu og þróun rafrænnar skráningar, rafrænna samskipta og uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrá á landsvísu. Rafræn samskipti við sjúklinga verða bætt og fjarheilbrigðisþjónusta efld.

Ég get nefnt líka skimun vegna ristilkrabbameins sem mun hefjast á tímabilinu og áfram verður stutt við heilsueflandi samfélög. Unnið verður að því að bæta aðgang almennings að nauðsynlegum lyfjum o.s.frv.

Virðulegur forseti. Ég get væntanlega komið að fleiri þáttum í samtali við hv. þingmenn, en ég vil nefna að lokum að helstu áskoranir málaflokksins eru breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, fjölgun ferðamanna og mönnun í heilbrigðiskerfinu í heild, sem eru áskoranir sem við erum ekki bara að glíma við hér á landi heldur alls staðar í löndunum í kringum okkur en er eitt af því sem verður viðvarandi verkefni okkar á næstu árum.