148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:27]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun til fimm ára á tímum góðæris. Í gær fylgdi hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra áætluninni úr garði og fullvissaði þingheim um að allt væri undir kontról og engin teikn um skúraleiðingar út við sjóndeildarhringinn. Himinninn sem sagt heiður og blár. Að minnsta kosti er áran yfir þessari ríkisstjórn sannarlega blá.

Heilbrigðisþjónusta er eitt af mikilvægustu samfélagsverkefnum okkar í samfélagi sem stöðugt tekur breytingum. Þéttbýlisþróun heldur áfram, vitund íbúanna, þekking og þjónusta eflist og kröfur um jafnræði og gott aðgengi eru háværar. Í fjármálaáætlun eru ýmis jákvæð markmið um að efla og styrkja og stuðla að flestu á milli himins og jarðar, jafnvel skoða og endurskoða. Margt má bæta frá því sem nú er en ekki er hægt að sjá með berum augum nýja hugsun til að takast á við breytta og krefjandi tíma, t.d. ört hækkandi hlutfall aldraðra sem bæði hefur áhrif á vinnumarkað og opinbera þjónustu.

Það má minna á að 5% þeirra íbúa sem eru 67 ára eða eldri í nágrannalöndum okkar eru búsett á stofnunum. Þetta er miklu hærra hlutfall hér af einhverjum ástæðum. Það eru 9% að minnsta kosti. Hlutfall aldraðra, 67 ára og eldri, mun verða orðið nærri 20% eftir rúmlega 20 ár, árið 2040. En þetta hlutfall er nú 12%. Þetta verður öflugur hópur, 76 þús. manns.

Þarna verður að skera upp herör, eða er ekki ráðherra sammála þessu?

Herra forseti. Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni glíma flestar við mikinn vanda, bæði fjárhagslegan og síðan sem afleiðingu þess starfsmannavanda. Af samtölum við stjórnendur vítt og breitt um landið er ekki að heyra að þeir upplifi viðsnúning með tilkomu og áherslum þessarar ríkisstjórnar. Nýtt greiðslufyrirkomulag hefur verið tekið í notkun í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, svokölluð framleiðslutengd fjármögnun. Sama kerfi verður tekið í notkun á Landspítala á þessu ári. (Forseti hringir.) Engin þarfagreining hefur verið gerð í tengslum við þessar breytingar en kerfið er tekið í notkun til þess, nokkurn veginn, að falla að hefðbundnum föstum fjárveitingum. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef farið er með rangt mál.

Ég kem frekar að þessu síðar.