148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda mig við fyrri hluta ræðu hv. þingmanns. Við komum vonandi að hinu hér í seinni umferð. Í fyrsta lagi lýsir hv. þingmaður eftir nýrri hugsun. Ég vil nefna sérstaklega að áhyggjur hv. þingmanns af að óvenjuhátt hlutfall aldraðra á Íslandi sé búsett á stofnunum. Ég held að það sé rétt að svo mörgu leyti að hafa áhyggjur af því. Ekki bara vegna þess að það er tiltölulega dýrt úrræði heldur líka vegna þess að það er ekki endilega það úrræði sem býður fólki mest lífsgæði. Eitt hjúkrunarrými kostar um 13 milljónir á ári en sömu upphæð er hægt að nota til að tryggja heilsueflingu og hreyfingu fyrir 100 manns á því hinu sama ári og mögulega þá að auka lífsgæði og möguleika viðkomandi á að vera lengur heima. Ég er sammála hv. þingmanni í því, það þarf að gæta þess að ætla ekki að leysa allt með byggingum eða nýjum húsum eða rýmum.

Hv. þingmaður spyr líka almennt um stefnumörkun o.s.frv. Við þurfum að gæta mjög vel að því að nýta fjármagnið enn betur en við erum að gera núna. Það gerum við meðal annars með því að skýra betur verkaskiptinguna milli annars vegar Landspítalans og hins vegar einstakra heilbrigðisstofnana úti um land, að það sé skýrara hvað við viljum gera í hverjum þessara þátta. Það er vinna sem stendur yfir núna. Ég hef miklar væntingar til þess að hún skili okkur góðri niðurstöðu, sérstaklega að því er varðar aðgengi fólks, óháð búsetu, að sérfræðilæknum. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við kortleggjum það og tökum um það sameiginlega og lýðræðislega ákvörðun hvernig við viljum dreifa heilbrigðisþjónustunni hvað þetta varðar til að tryggja sem jafnastan aðgang að þeim hluta heilbrigðisþjónustunnar sem snýr að sérfræðilækningum en ekki síður að byggja upp heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og þar með heilsugæsluhlutann.