148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:37]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Takk kærlega fyrir. Í fjármálaáætluninni sem liggur hérna fyrir Alþingi er talað um að tekið verði á geðsjúkdómum með fjölþættum aðgerðum og það um allt land. Ef skoðað er áfram inn í áætlunina má sjá að styrkja á göngudeildarþjónustu BUGL um 1 milljarð. Fjármunir eru m.a. ætlaðir í að fjölga starfsfólki við BUGL.

Mig langar að velta upp nokkrum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvernig á að standa að göngudeildarþjónustu BUGL við allt landið? Ég gef mér að litið sé á þjónustuna sem þjónustu sem veitt er á sjúkrahúsum eða öðrum sérhæfðum stofnunum og er eingöngu hægt að sinna þar. Annað er að við Sjúkrahúsið á Akureyri er starfandi svokallað BUG-teymi, sem er einnig þverfaglegt teymi sem sinnir fjölþættum og alvarlegum vanda barna á Akureyri og í nágrenni Akureyrar, líkt og gert er á BUGL í Reykjavík. Er ætlunin að styrkja þá þjónustu sem teymið á Akureyri veitir? Fara einhverjir fjármunir þangað? Ég ímynda mér að það sé ekki hægt að stóla einungis á fjarheilbrigðisþjónustu í þessu efni. Ég fagna því mjög ef heilbrigðisráðherra ætlar (Forseti hringir.) að efla þjónustu um allt land. Ég vil brýna hana í að svara mér mjög skýrt.