148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir því að fullfjármagna geðheilbrigðisáætlun sem Alþingi samþykkti árið 2016. Þar er að hluta til verið að tala um geðheilsuteymin sem gert er ráð fyrir að byggist upp í hverjum fjórðungi og á höfuðborgarsvæðinu. Það gerist í tilteknum skrefum. Ég er þeirrar skoðunar að það megi alls ekki bíða og sé gríðarlega mikilvægt að herða frekar á þeirri breytingu en hitt.

Varðandi spurningu hv. þingmanns sem lýtur að starfsemi BUGL annars vegar og síðan samsvarandi þjónustu hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri, er það afstaða mín þegar kemur að því í fjárlögum að ráðstafa því fé sem nú er merkt sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu, undir lið 23, ef ég man það rétt í fjármálaáætlun og síðan í fjárlögum, að áherslan sem lögð er hjá Landspítalanum á að vera sú sama hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það er meginlínan, vegna þess að þar erum við í raun með að hluta til sambærilegt bakland fyrir norður- og austursvæðið og skiptir miklu máli að það standi undir nafni allan tímann.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega fjarheilbrigðisþjónustu og sagði réttilega: Málin verða ekki leyst með fjarheilbrigðisþjónustu. Ég held að það sé tímabært að í staðinn fyrir að tala um fjarheilbrigðisþjónustu eins og einhverja sérstaka tegund heilbrigðisþjónustu förum við að samþætta fjarheilbrigðisþjónustu inn í allar hliðar heilbrigðisþjónustunnar, en hún hangir auðvitað líka á því að færi séu til fjarskipta. Í afskiptustu byggðum landsins er einfaldlega ekki hægt að komast í almennilegt tölvusamband. Það er lykillinn.

En ég held að það séu alveg gríðarlega mörg tækifæri, sérstaklega í þjónustu við aldraða og í þjónustu sem lýtur að viðtölum eða slíku, að nýta fjarskipti enn betur en við höfum verið að gera hingað til.