148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða um stöðu landsbyggðarsjúkrahúsa við hæstv. heilbrigðisráðherra. Gott að fá þetta tækifæri til þess að hitta hana hér á þessum vettvangi. Hún hefur staðið sig vel í því að kynna sér stöðuna og sérstaklega í mínu kjördæmi, er mér kunnugt. Mig langar að ræða við hana um þá fordæmalausu fjölgun íbúa og erlendra ferðamanna sem sækja landið heim sem hefur valdið sjúkrahúsunum á landsbyggðinni ekki síst miklum vandræðum.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja búa við algjörlega fordæmalausa fjölgun íbúa og ferðamanna og hafa lent í erfiðleikum vegna þess, auk þess sem á Suðurnesjum búa fjölmargir erlendir íbúar sem tekur meiri tíma að þjónusta. Þá býr Heilbrigðisstofnun Suðurnesja við lægri framlög en sambærilegar stofnanir eins og fram hefur komið. Þar er heilsugæslan í erfiðleikum. Þar vantar mikið af læknum til starfa, mjög mikið álag á þeim og hjúkrunarfólki og öðru starfsfólki. Þar eru hjúkrunarfræðingar á lægri launum heldur en gerist og gengur t.d. á Landspítalanum. Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvernig það má vera. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra núna í fyrri hluta spurningar minnar: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að nýta sér fjármuni í fimm ára fjármálaáætlun til að styrkja stöðu þessara stofnana og landsbyggðarsjúkrahúsanna yfir höfuð með það í huga að þar hefur íbúum fjölgað langt umfram venjulega þróun og einnig sérstaklega ferðamönnum?