148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu. Það er nú svo að það skapalón sem okkur er fært, þegar við erum að skrifa inn í fjármálaáætlun, rúmar ekki allar mögulegar hugsanir og pælingar og markmið og leiðir. Ég vil segja það við hv. þingmann að það að meta mannaflaþörf í heilbrigðiskerfinu í heild er auðvitað verkefni sem stendur yfir. Það þurfum við að gera og bera það síðan að aldurssamsetningu og þróun íbúa á Íslandi. Við þurfum að leggja þetta hlið við hlið. Samhliða horfum við til þess að við eigum nú þegar yfirlýsingu, sem er undirrituð af heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra, sem fylgdi í raun niðurstöðu kjarasamninga við BHM og snýst um það að í samræmi við mannaflaspána verði ráðist í aðgerðir til að styrkja stöðu heilbrigðisstétta.

Hvernig ætlarðu að gera það og hvað er það sem þú ert að tala um? Það er mjög eðlileg spurning. Ég fór með minnisblað inn í ríkisstjórn um stöðuna á Landspítalanum. Í raun má segja að það sé í fréttum upp á hvern einasta dag og síðast í gær um stöðuna sem kemur til af manneklu og nú í röðum hjúkrunarfræðinga þegar búið er að búa sjúkling undir aðgerð og svo verður hann að bíða viku í viðbót vegna þess að mönnunin er ekki fullnægjandi.

Þetta ástand, hvað sem við viljum kalla það, er ekki verkefni heilbrigðisráðherrans eins. Það verður að vera verkefni fleiri ráðherra í ríkisstjórninni, að ég nefni sérstaklega forsætis- og fjármálaráðherra. Þess vegna hef ég óskað eftir því að þessi þrjú ráðuneyti komi að því að fara yfir tillögur, sem eru til, sem lúta að kjörum og starfsumhverfi heilbrigðisstétta í dag og bregðast við þessu ástandi tafarlaust. Ekki verður við það unað lengur að við séum í raun að ráðstafa opinberu fé í að mennta stéttir í stórum stíl sem skila sér síðan ekki inn í þessa mikilvægu innviði velferðarþjónustunnar.