148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:58]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að skipta aðeins um umræðuefni út af því að það er svo margt að dekka hér á þessum stutta tíma. Ég ætla að fara í geðheilbrigðismálin. Ég fagna því að hæstv. heilbrigðismálaráðherra sé að fjölga geðheilsuteymum, en ég átta mig ekki alveg á því hvernig það eitt og sér nær markmiði um að auka aðgang sjúklinga að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu sem er markmið númer tvö í málaflokknum. Þetta er sérstaklega furðulegt í ljósi þess að á meðan verið er að efla geðheilsuúrræði innan heilsugæslunnar, sem er mjög gott, er verið að leggja niður félagasamtök sem hafa sinnt brautryðjandi og árangursríku forvarnastarfi sem byggir á valdeflingu notenda í meira en áratug og með góðum niðurstöðum fyrir notendur þjónustunnar og samfélagið allt. Það er ljóst að það mun ekki henta öllum að sækja sér geðheilbrigðisþjónustu inn á heilsugæslu og mun það sennilega virka sem hindrun fyrir marga. Þess vegna er fjölbreytt þjónusta svo mikið lykilatriði og þar gegna frjáls félagasamtök mikilvægu hlutverki.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra í nafni fjölbreytni hvort ráðherra komi til með að beita sér fyrir því að Geðheilsa – eftirfylgd, fái áframhaldandi rekstur tryggðan í gegnum samning Sjúkratrygginga Íslands?

Svo er annað mikilvægt mál sem snýr að einstaklingum með ákominn heilaskaða, en ég furða mig á því að lítið sem ekkert er tekið af þessum mikilvæga málaflokki í fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Það er ljóst að mikil vanþekking er til staðar í kerfinu okkar þegar kemur að greiningu og meðferð fólks með ákominn heilaskaða. Hér er um að ræða börn sem eru oft vangreind með ADHD eða einhverfu og einnig einstaklinga inni á geðdeildum sem eiga alls ekki heima þar. Mér skilst að hæstv. ráðherra hafi fundað með Hugarfari, félagi fólks með ákominn heilaskaða, og í kjölfarið talað um að settur yrði saman starfshópur til að skoða þennan málaflokk.

Ég spyr því: Hyggst hæstv. ráðherra setja saman þennan starfshóp því að ég finn ekki orð um það í fjármálaáætlun?